Fyrir­tækið Tækni­vörur tryggði sér merki Stjörnu­torgs á upp­boði og mun færa Í­þrótta­fé­lagi Stjörnunnar í Garða­bæ þar sem merkið verður komið fyrir á torgi Stjörnu­manna. Skiltið var selt fyrir 200.000 krónur og mun allur á­góði renna ó­skiptur í pakka­söfnun Kringlunnar.

Stjörnu­torgi Kringlunnar var form­lega lokað í nóvember sl. þegar allri þriðju hæðinni var breytt og við tók veitinga­svæðið Kúmen. Við það til­efni bauð Kringlan merki Stjörnu­torgs á upp­boði og var allur á­góði á­nafnaður pakka­söfnun Kringlunnar til styrktar Mæðra­styrks­nefnd og Fjöl­skyldu­hjálp Ís­lands.

Það voru jóla­álfar Kringlunnar á­samt markaðs­stjóra Kringlunnar, Bald­vinu Snæ­laugs­dóttur, sem tóku við styrknum og af­hentu um leið skiltið.

Við pakka­söfnun Kringlunnar eru við­skipta­vinir hvattir til að kaupa eina auka­gjöf og setja hana í söfnunina við jóla­tréð í Kringlunni. Einnig er hægt að styrkja söfnunina með fram­lagi á heima­síðu Kringlunnar. Jóla­álfarnir munu síðan safna saman á­góðanum og skottast í verslanir Kringlunnar til að kaupa gjafir handa börnum sem á þurfa að halda.

Pakka­söfnunin hófst í byrjun desember og hafa margir lagt henni lið. Að sögn Bald­vinu er söfnunin í ár þó tölu­vert dræmari en í fyrra eða um það bil 30% minni og er það á­hyggju­efni þar sem síst færri fjöl­skyldur reiða sig á að­stoð hjálpar­sam­taka um þessi jól. Bald­vina bendir á að fram­lög þurfa ekki að vera há til að gera mikið gagn og að allt safnist sem saman kemur.