Sævar Helgi Bragason stjörnufræðikennari gagnrýnir ljósmengun sem hafi færst í aukana undanfarin ár.

Ljósmengunina segir Sævar ekki aðeins hafa það í för með sér að ekki sjáist til himins á nóttunni, heldur hafi lýsingin heilsuspillandi áhrif á bæði fólk og umhverfið.

„Það sem við höfum lært er að þessi mikla raflýsing hefur raskandi áhrif á líkamsstarfsemi okkar og veldur því meðal annars að við sofum verr. Það eru líka rannsóknir sem benda til þess að fækkun skordýra og fugla í heiminum megi að mörgu leyti rekja til of mikillar raflýsingar á nóttunni.“

Sævar segir ljósmengun vera stórt vandamál um allan heim en fáir vilja grípa til aðgerða þar sem fólki finnst oft óþægilegt að vera í miklu myrkri. Hann segist ekki tala fyrir því að slökkva á öllum ljósum, heldur ætti að haga lýsingunni skynsamlega og minnka birtuna þar sem á við.

„Við megum heldur ekki gleyma að myrkrið er ekki bara heilsusamlegt, heldur er það auðlind. Fólk flykkist hingað í tugþúsundatali til að upplifa nóttina og þá sérstaklega það sem skín á nóttunni, sem eru norðurljósin,“ segir Sævar.