„Það er ekki skrítið að ekki sé til skrá yfir fljúgandi furðu­hluti á Ís­landi. Á­stæðan er ein­fald­lega sú að sára­sjaldan sést eitt­hvað eða verður vart við eitt­hvað sem ekki fást nægar skýringar á,“ segir Sæ­var Helgi Braga­son, betur þekktur sem Stjörnu-Sæ­var. „Við höfum aldrei verið betur búin mynda­vélum en aldrei sést neitt sem ekki er hægt að skýra.“

Sæ­var segist fá ara­grúa af ljós­myndum og fyrir­spurnum á hverju ári um fyrir­bæri á himni. „Nánast alltaf tekst að út­skýra og þá reynist um að ræða stjörnu­hröp, flug­vélar, gervi­tungl, ljós­luktir og jafn­vel bjartar reiki­stjörnur eða stjörnur sem fólk þekkir ekki,“ segir hann.

Oft er um að ræða flug­vélar sem lýsast upp á sér­kenni­legan hátt þegar að sól er lágt á lofti eða gervi­tungl sem endur­spegla ljós í einni stöðu en virðast svo hverfa þegar þau færast til. Þá nefnir Sæ­var líka ljós­luktir sem eru sleppt til himins, oft í klösum.

„Mann­kynið hefur aldrei vaktað himinn og jörð betur en í dag og undan­farin ár. Víða um heim eru mynda­vélar sem stöðugt stara til himins. Stjörnu­fræðingar setja t.d. upp slíkar vélar sem nema allan himininn í einu í leit að loft­steinum,“ segir Sæ­var. „Aldrei kemur neitt ó­út­skýran­legt fram á þeim.“

Sæ­var bendir á að ekki að­eins erum við með mynda­vélar sem beina upp í himinn allan sólar­hringinn heldur eru einnig fjöldi gervi­tungla á sveimi sem beina mynda­vélum sínum niður á jörðina.

Myndefni frá Bandaríkjaher hefur jarðneskar útskýringar

Sæ­var segir það vera skiljan­legt að Banda­ríkja­her skuli sýna ó­út­skýrðum fyrir­bærum á himni á­huga, enda falli það í þeirra hlut að gæta loft­helgi landsins. En Sæ­var telur mynd­efnið sem sjó­her Banda­ríkjanna gerði opin­bert á dögunum ekki gefa til kynna yfir­náttúru­leg fyrir­bæri.

„Nýjustu dæmin sem verið hafa í fjöl­miðlum eru gott dæmi um mynd­efni sem er blásið upp meir en til­efni er til,“ segir Sæ­var. „Hægt er að út­skýra allt mynd­efnið með jarð­neskari og ein­faldari út­skýringum en um sé að ræða heim­sóknir frá öðrum hnöttum.“

Þá er ein út­skýring sú að upp­takan geti gefið skekktar myndir af fyrir­bærunum, sam­kvæmt Sæ­vari. Ljós­hjúpur í kringum eitt fyrir­bærið kemur til vegna inn­rauðs ljóss og upp­lýsingu en ógn­væn­legur hraði annars fyrir­bærisins megi skýra af því að mynd­efnið er tekið úr flug­vél sem er á ferð og búið sé að þysja inn á fyrir­bærið. Þá bendir Sæ­var á YouTu­be mynd­band sem hann telur út­skýra þessi fyrir­bæri vel.

„Ég vildi inni­lega óska þess að fljúgandi furðu­hlutir væru í raun heim­sóknir frá öðrum hnöttum,“ segir Sæ­var. „Hef bara alltaf orðið fyrir von­brigðum þegar það eina sem boðið er upp á er ó­skýrt og lé­legt mynd­efni sem á sér á endanum alltaf jarð­enskar skýringar.“