Stjórnmálaflokkar á Íslandi hafa eytt hátt í fjórum milljónum í Facebook auglýsingar á síðustu þremur mánuðum, samkvæmt skýrslu auglýsingasafns Facebook fyrir tímabilið 10. mars til 7. júní.
Flokkur fólksins eyddi langmest en flokkurinn setti yfir 1,4 milljónir króna í auglýsingar á Facebook á tímabilinu. Samfylking kemur þar á eftir með 830 þúsund krónur sem er tvöfalt meira en það sem Sjálfstæðisflokkurinn eyddi, 409 þúsund krónur. Miðflokkurinn eyddi 293 þúsund krónum og Vinstrihreyfingin grænt framboð 262 þúsund. Þar á eftir koma Framsókn með 197 þúsund krónur og Sósialistaflokkur Íslands með 188 þúsund. Á sama tímabili eyddi Viðreisn aðeins 88 þúsund krónum og Píratar 77 þúsund krónum.
Hér ber að hafa í huga að einungis er verið að tala um auglýsingar á Facebook en ekki auglýsingar á öðrum samfélagsmiðlum eða í fjölmiðlum.
Frambjóðendur í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík eyddu síðan yfir tveimur milljónum í auglýsingar á Facebook á tímabilinu en prófkjöri flokksins lauk 5. júní.
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra og oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður, setti mesta allra frambjóðenda í auglýsingar á Facebook en hann eyddi um 792 þúsund krónum á tímabilinu. Samkvæmt skráningu Facebook var Guðlaugur einnig með langflestar auglýsingar en hann er með skráðar 339 auglýsingar.
Guðlaugur stóð uppi sem sigurvegari í prófkjörinu með alls 3.508 atkvæði í fyrsta sæti.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra og oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður, kemur rétt á eftir Guðlaugi en hún setti um 515 þúsund krónur í auglýsingar á Facebook.
Áslaug Arna var hins vera með mun færri auglýsingar en Guðlaugur en samkvæmt safni Facebook var hún með 88 auglýsingar skráðar á tímabilinu.
Áslaug Arna tók annað sætið í prófkjörinu með alls 4.912 atkvæði í fyrsta til annað sæti.

Friðjón kom seint inn en gaf í undir lokin
Friðjón R. Friðjónsson, almannatengill og eigandi KOM, sem endaði í áttunda sæti í prófkjörinu, setti alls 333 þúsund krónur í Facebook auglýsingar. Friðjón kom seint inn í baráttuna og vekur athygli að 330 þúsund krónum af þessari upphæð var eytt á tímabilinu 1. til 7. júní.
Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, setti um 130 þúsund krónur í auglýsingar á Facebook. Sigríður hafði ekki erindi sem erfiði og endaði ekki meðal níu efstu frambjóðenda.
Athygli vekur að hæstaréttarlögmaðurinn Diljá Mist Einarsdóttir, sem endaði í þriðja sæti í prófkjörinu, eyddi ekki nema 115 þúsund krónum í Facebook auglýsingar frá 10. mars. Kjartan Magnússon, fyrrverandi borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, kom þar á eftir með 112 þúsund krónur.
Svo virðist sem Hildur Sverrisdóttir, aðstoðarmaður ferðamála-, iðnaðar og nýsköpunarráðherra, hafi fengið mest fyrir Facebook peninginn sinn en Hildur setti aðeins 108 þúsund krónur í auglýsingar á Facebook en hafnaði í fjórða sæti í prófkjörinu.
