Stjórn­mála­flokkar á Ís­landi hafa eytt hátt í fjórum milljónum í Face­book aug­lýsingar á síðustu þremur mánuðum, sam­kvæmt skýrslu aug­lýsinga­safns Face­book fyrir tíma­bilið 10. mars til 7. júní.

Flokkur fólksins eyddi lang­mest en flokkurinn setti yfir 1,4 milljónir króna í aug­lýsingar á Face­book á tíma­bilinu. Sam­fylking kemur þar á eftir með 830 þúsund krónur sem er tvö­falt meira en það sem Sjálf­stæðis­flokkurinn eyddi, 409 þúsund krónur. Mið­flokkurinn eyddi 293 þúsund krónum og Vinstri­hreyfingin grænt fram­boð 262 þúsund. Þar á eftir koma Fram­sókn með 197 þúsund krónur og S­ósi­alista­flokkur Ís­lands með 188 þúsund. Á sama tíma­bili eyddi Við­reisn að­eins 88 þúsund krónum og Píratar 77 þúsund krónum.

Hér ber að hafa í huga að einungis er verið að tala um aug­lýsingar á Face­book en ekki aug­lýsingar á öðrum sam­fé­lags­miðlum eða í fjöl­miðlum.

Fram­bjóð­endur í próf­kjöri Sjálf­stæðis­flokksins í Reykja­vík eyddu síðan yfir tveimur milljónum í aug­lýsingar á Face­book á tíma­bilinu en próf­kjöri flokksins lauk 5. júní.

Guð­laugur Þór Þórðar­son, utan­ríkis­ráð­herra og odd­viti Sjálf­stæðis­flokksins í Reykja­víkur­kjör­dæmi norður, setti mesta allra fram­bjóð­enda í aug­lýsingar á Face­book en hann eyddi um 792 þúsund krónum á tíma­bilinu. Sam­kvæmt skráningu Face­book var Guðlaugur einnig með lang­flestar aug­lýsingar en hann er með skráðar 339 aug­lýsingar.

Guðlaugur stóð uppi sem sigur­vegari í próf­kjörinu með alls 3.508 at­kvæði í fyrsta sæti.

Guðlaugur þór eyddi mest allra frambjóðenda í prófkjörinu í Reykjavík.
Fréttablaðið/Ernir

Ás­laug Arna Sigur­björns­dóttir, dóms­mála­ráð­herra og odd­viti Sjálf­stæðis­flokksins í Reykja­víkur­kjör­dæmi suður, kemur rétt á eftir Guðlaugi en hún setti um 515 þúsund krónur í aug­lýsingar á Face­book.

Ás­laug Arna var hins vera með mun færri aug­lýsingar en Guð­laugur en samkvæmt safni Face­book var hún með 88 aug­lýsingar skráðar á tíma­bilinu.

Áslaug Arna tók annað sætið í próf­kjörinu með alls 4.912 at­kvæði í fyrsta til annað sæti.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, eyddi næstmest allra frambjóðenda í facebook auglýsingar.
Fréttablaðið/ Anton Brink.

Friðjón kom seint inn en gaf í undir lokin

Frið­jón R. Frið­jóns­son, al­manna­tengill og eig­andi KOM, sem endaði í áttunda sæti í próf­kjörinu, setti alls 333 þúsund krónur í Face­book aug­lýsingar. Friðjón kom seint inn í bar­áttuna og vekur at­hygli að 330 þúsund krónum af þessari upp­hæð var eytt á tímabilinu 1. til 7. júní.

Sig­ríður Á. Ander­sen, þing­maður Sjálf­stæðis­flokksins, setti um 130 þúsund krónur í aug­lýsingar á Face­book. Sig­ríður hafði ekki erindi sem erfiði og endaði ekki meðal níu efstu fram­bjóð­enda.
At­hygli vekur að hæsta­réttar­lög­maðurinn Diljá Mist Einars­dóttir, sem endaði í þriðja sæti í próf­kjörinu, eyddi ekki nema 115 þúsund krónum í Face­book aug­lýsingar frá 10. mars. Kjartan Magnús­son, fyrr­verandi borgar­full­trúi Sjálf­stæðis­flokksins, kom þar á eftir með 112 þúsund krónur.

Svo virðist sem Hildur Sverris­dóttir, að­stoðar­maður ferða­mála-, iðnaðar og ný­sköpunar­ráð­herra, hafi fengið mest fyrir Face­book peninginn sinn en Hildur setti að­eins 108 þúsund krónur í auglýsingar á Face­book en hafnaði í fjórða sæti í próf­kjörinu.

Hildur Sverrisdóttir eyddi minnst frambjóðenda í Reykjavík í Facebook.
Fréttablaðið/Stefán