Í dag, á kvenréttindadeginum, segir forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, sem jafnframt er ráðherra jafnréttismála, að í dag sé réttindum kvenna til að kjósa og til stjórnmálaþátttöku fagnað. Hún segir að sem ráðherra jafnréttismála hafi hún hafi varla undan að taka við viðurkenningum fyrir góðan árangur Íslands á sviði kynjajafnréttis en tekur þó fram að þó að Ísland hafi margt fram að færa, þá höfum við enn margt að læra. Sérstaklega eftir #metoo bylgjuna.

Kvennahreyfingin hafi verið óþreytandi

„Kvennahreyfingin hefur í gegnum tíðina verið óþreytandi við að halda á lofti þeim sannindum að hið persónulega er pólitískt og hið pólitíska persónulegt. Ákvarðanir sem stjórnmálamenn taka geta haft bein áhrif á daglegt líf fólks og fært samfélagið í tilteknar áttir,“ segir Katrín í pistli sem hún birtir á heimasíðu flokks Vinstri-grænna í dag.

Katrín segir að stjórnmálaþáttaka kvenna hafi gjörbreytt íslensku samfélagi. Ef ekki væri fyrir þrotlausa baráttu kvenna væru sem dæmi almennir leikskólar og einsetinn grunnskóli varla veruleiki. Það sama megi segja um Landspítalanna og um ýmis önnur framfaramál í heilbrigðismálum.

„Öflugir skólar og öflugt velferðar- og heilbrigðiskerfi eru undirstaða fjölbreytts atvinnulífs og öflugs efnahagslífs og um leið grunnur að réttlátu og góðu samfélagi,“ segir Katrín.

Katrín segir í pistli sínum að hún hafi vart undan við að taka við viðurkenningum fyrir góðan árangur Íslands á sviði kynjajafnréttis.

„Ég gæti þess í hvívetna að árétta að þann árangur beri ekki að þakka einstaklingum og allra síst einstaka stjórnmálamönnum, heldur hreyfingu. Því það er samtakamátturinn og samvinnan sem hafa skilað mörgum af bestu breytingum Íslandssögunnar og saga kvenréttinda er þar ótrúlega gott dæmi,“ segir Katrín.

Hún segir að sé litið yfir söguna sést að mannréttindabarátta sé ekki línulegt ferli og tekur sem dæmi einhver lönd Evrópu þar sem enn á ný réttur kvenna til yfirráða yfir sínum eigin líkama er orðið „að þrætuepli“ og sjónarmið sem „manni finnst að ættu að tilheyra löngu liðnum tímum haldið stíft á lofti.“

Hún segir það því fagnaðarefni að á sama tíma og réttur kvenna í Bandarikjunum til þungunarrofs sé verulega skertur hafi hér á Íslandi verið samþykkt lög sem tryggir sjálfsákvörðunarrétt kvenna.

Höfum enn margt að læra á Íslandi

Katrín segir í pistli sínum að þó að Ísland hafi margt fram að færa, þá höfum við margt að læra. Það höfum við, til dæmis, lært á #églíka eða #metoo bylgjunum sem vörpuðu hulunni af „hinni endalausu – og óþægilega hversdagslegu – áreitni sem konur í öllum lögum samfélagsins hafa búið við.“

Katrín segir að því verði þetta eitt af viðfangsefnum alþjóðlegrar ráðstefnu um #metoo sem verður haldin hér í september á þessu ári. Ráðstefnan er haldin í tengslum við formennsku Íslands í norrænu ráðherranefndinni.

Katrín segir að bæði forvarnir og fræðslu þurfi að taka fastari tökum og að nú sé unnið að stefnumótun þar að lútandi á vettvangi forsætisráðuneytisins í samstarfi við önnur ráðuneyti, opinberar stofnanir og fleiri aðila sem þekkja vel til þessara mála.

Hún segir að samhliða því sé unnið að því að bæta meðferð kynferðisbrotamála innan réttarvörslukerfisins, þar á meðal með fullfjármagnaðri aðgerðaáætlun á vegum dómsmálaráðuneytisins og með tillögum um úrbætur á réttarstöðu brotaþola. Ný áætlun um aðgerðir gegn ofbeldi sem Alþingi samþykkti á dögunum blási einnig byr í seglin. Katrín segir að hér þurfi að láta verkin tala og að allir þurfi að leggja sín lóð á vogarskálarnar til að tryggja að kynferðislegt og kynbundið ofbeldi og áreitni eigi engan samastað í okkar samfélagi.

Á kvenréttindadeginum getum við litið stolt um öxl en þetta er líka kjörið tækifæri til að huga að þeim mikilvægu verkefnum sem framundan eru. Við höldum ótrauð áfram á sömu braut og byggjum upp samfélagslega innviði jöfnuðar, kvenfrelsis og mannréttinda. Til hamingju með daginn!,“ segir Katrín að lokum.

Grein Katrínar er hægt að lesa hér í heild sinni.