Norður-írski stjórn­mála­maðurinn John Hume, sem hlaut meðal annars friðar­verð­laun Nóbels árið 1999 á­samt David Trimble fyrir friðar­sam­komu­lagið á Norður-Ír­landi, er nú látinn, 83 ára að aldri. Að því er kemur fram í frétt Breska ríkis­út­varpsins hafði Hume verið að glíma við lang­varandi veikindi og fer jarðar­för hans fram á mið­viku­daginn.

Hume var mjög á­berandi í norður-írskum stjór­málum en hann var einn stofn­aðili Jafnaðar- og verka­manna­flokks Norður-Ír­lands (SDLP) og var leið­togi flokksins frá árinu 1979 til 2001. Hann var sömu­leiðis þekktur fyrir bar­áttu sína fyrir frið­sam­legum og lýð­ræðis­legum stjórn­málum.

Fjölskylda Hume sagði í yfirlýsingu að dauði hans kæmi til með að hafa áhrif á fólk víða.

Gerry Adams, John Hume, Bill Clinton og David Trimble árið 2000.
Fréttablaðið/AFP

Minnast Hume með hlýhug

Fjöldi stjórn­mála­manna hafa vottað fjöl­skyldu Hume virðingu sína. Að sögn Tony Blair, fyrrum for­sætis­ráð­herra Bret­lands, var Hume „hug­sjóna­maður sem neitaði að trúa að fram­tíðin þyrfti að vera sú sama og for­tíðin,“ en Blair var for­sætis­ráð­herra þegar friðar­sam­komu­lagið var undir­ritað árið 1998.

Bill Clin­ton, fyrrum Banda­ríkja­for­seti, tók í svipaða strengi og minntist Hume fyrir bar­áttu hans fyrir bjartari fram­tíð á Norður-Ír­landi. „Hans vopn voru ó­haggandi stuðningur við frið­sam­legar að­gerðir, þraut­seigja, vin­semd og kær­leikur,“ sagði Clin­ton.

Boris John­son, for­sætis­ráð­herra Bret­lands, sagði Norður-Ír­land hafa tapað stór­kost­legum manni sem barðist fyrir friði og bjartari fram­tíð. Að hans sögn hafði sýn Hume „lagt slit­lag á leiðina að stöðug­leika, já­kvæðni og kraft Norður-Ís­lands dagsins í dag.“