Jafnréttisstofa hefur hrint úr vör jafnréttisátakinu Játak. Það snýst um að stjórnmálaflokkarnir og framboðin hugi að fjölbreytileika við uppstillingar eða prófkjör fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í vor. Átakið er unnið í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga, Kvenréttindafélag Íslands, Fjölmenningarsetur og tvö ráðuneyti.

„Sveitarstjórnarmál snúast um nærsamfélagið og það er mikilvægt að sem flestar raddir fái að heyrast,“ segir Anna Lilja Björnsdóttir, sérfræðingur hjá Jafnréttisstofu, en hún fór ásamt Katrínu Björgu Ríkarðsdóttur framkvæmdastjóra og gáfu sveitarstjórnarfólki hjá Akureyrarbæ og Eyjafjarðarsveit nammipoka til áminningar.

Einn pokinn er með einlitu sælgæti og annar með marglitu. Skilaboðin eru þau að ef allt er eins er valkosturinn enginn.

Eftir síðustu sveitarstjórnarkosningar, árið 2018, voru konur 47 prósent fulltrúa. Anna segir að þessum flotta árangri megi ekki taka sem sjálfsögðum hlut og passa upp á að ekki verði bakslag. Þá sé hlutfallið ekki alls staðar á landinu það sama.

„Núna er verkefnið að viðhalda jöfnu kynjahlutfalli og jafn framt auka fjölbreytileika út frá öðrum breytum,“ segir hún.

Þessar breytur eru meðal annars kynhneigðir, aldur, fatlanir og uppruni. Einna verst hefur gengið að fá innflytjendur til þátttöku í stjórnmálum og nokkur áhersla er á þennan hóp í Játakinu, meðal annars er það þýtt á ensku og pólsku.

Innflytjendur eru rúmlega 15 prósent þjóðarinnar en engu að síður hafa afar fáir úr þessum hóp tekið sæti sem kjörnir fulltrúar. Anna Lilja segir ekki hafa gengið nógu vel að virkja innflytjendur til þátttöku í pólitík. Helsta leiðin til þess sé að láta fólki finnast eins og það sé velkomið að taka þátt.