Fyrstu kappræðurnar milli Donald Trump Bandaríkjaforseta og Joe Biden, fyrrverandi varaforseta, fóru fram í nótt. Óhætt er að segja að kappræðurnar hafi verið vægast sagt skipulagslausar en umræðustjórinn Chris Wallace þurfti ítrekað að biðja bæði Trump og Biden um að halda sig við efnið.

Eftir að kappræðunum lauk voru flestir álitsgjafar fjölmiðla vestanhafs sammála að kappræðurnar hafi verið einhverjar þær stjórnlausustu í sögunni. Fréttamaður CNN, Wolf Blitzer, sagði til að mynda að frammistaða frambjóðendanna í kvöld veki upp ýmsar spurningar um framhaldið og að hann væri ekki hissa ef þetta yrðu einu kappræðurnar fyrir forsetakosningarnar.

Líkt og áður hefur komið fram munu Trump og Biden mætast tvisvar sinnum í viðbót í kappræðum fyrir forsetakosningarnar þann 3. nóvember auk þess sem Mike Pence og Kamala Harris, varaforsetar Trumps og Biden, mætast einu sinni. Áhugavert verður að sjá hvernig næstu kappræður fara fram.

Fyrir kappræðurnar var umræðuefnum kvöldsins skipt í sex flokka; Afrek frambjóðendanna, Hæstiréttur Bandaríkjanna, COVID-19, mótmæli og óeirðir vegna kynþáttamismunar, heilindi kosninganna, og efnahagsmál. Áætlað var að 15 mínútum yrði varið í hvern flokk og að Biden og Trump fengu hver um sig tvær mínútur til að svara spurningum Wallace. Hér fyrir neðan má sjá samantekt á helstu málum og uppákomum kvöldsins.

Skipun Barrett

Fyrsta spurning kvöldsins sneri að skipun Amy Coney Barrett í Hæstarétt Bandaríkjanna en Trump tilkynnti um helgina að hann hafi tilnefnt hana til að taka við sæti Ruth Bader Ginsburg við réttinn. Tilnefningin hefur verið vægast sagt umdeild en Repúblikanar stefna á að samþykkja tilnefninguna innan öldungadeildarinnar fyrir kosningarnar þann 3. nóvember.

Aðspurður um skipunina sagði Biden að bíða ætti með að samþykkja tilnefninguna þar til eftir kosningar svo þjóðin gæti haft eitthvað að segja um málið. Þá vísaði hann til viðhorfs Barrett til heilbrigðiskerfis Bandaríkjanna og réttindi kvenna til fóstureyðinga en sagðist annars ekkert hafa á móti henni. Trump svaraði með því að hann hefði unnið kosningarnar og ætti því rétt á að skipa Barrett.

„Viltu ekki þegja, maður?“

Það leið ekki á löngu fyrr en Trump fór að taka fram í fyrir Biden en eftir að Biden ræddi viðhorf forsetans til núverandi heilbrigðiskerfis sakaði Trump Biden um rangfærslur og að viðhalda sósíalískum viðhorfum. Þegar Biden reyndi að svara fullyrðingum Trump komst hann lítið að og var ljóst að Wallace væri að missa stjórn á umræðunni.

Fljótlega var ljóst að Trump væri ekki að fara að fylgja þeim reglum sem bæði Repúblikanar og Demókratar samþykktu fyrir kappræðurnar en á tímabili var Trump farinn að rökræða við Wallace. Þá reyndist lítið vera hægt að ræða um stefnu frambjóðendanna vegna truflanna og þurfti Wallace ítrekað að minna á reglurnar.

Biden virtist fljótt verða þreyttur á ítrekuðum frammíköllum Trumps og var nóg boðið þegar tæplega 20 mínútur voru liðnar af kappræðunum. „Viltu ekki þegja, maður?“ sagði Biden meðal annars við Trump á einum tímapunkti þegar tilraunir hans til að svara spurningum báru ekki ávöxt. „Í 47 ár hefur þú ekki gert neitt,“ sagði Trump meðal annars við Biden.

Viðbrögð við COVID-19 faraldrinum

Skömmu síðar, eftir skammir frá Wallace, virtust umræðurnar róast nokkuð og færðist umræðan að heilbrigðiskerfinu í ljósi COVID-19 faraldursins. Alls hafa rúmlega 200 þúsund manns látist vegna faraldursins í Bandaríkjunum og rúmlega sjö milljónir manns smitast en Trump hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir viðbrögð sín við faraldrinum.

Trump fullyrti að viðbrögð sín við faraldrinum hafi verið framúrskarandi og að fleiri hefðu látist ef ekki væri fyrir aðgerðir hans. Biden aftur á móti þvertók fyrir það og velti fyrir sér hvort bandaríska þjóðin trúi fullyrðingum Trumps. Hann sagði að það hafi verið ljóst frá upphafi að Trump hafi ekki verið tilbúin til að takast á við faraldurinn.

Fljótlega eftir fullyrðingar Biden hófust frammíköll Trumps á ný, þar sem Trump ítrekaði fullyrðingar sínar og dró fullyrðingar Biden í efa. Á einum tímapunkti sagði Biden að Trump væri ekki gáfaður maður og þá var Trump nóg boðið. „Aldrei ræða um gáfur við mig,“ sagði Trump og bætti við að Biden hafi staðið sig einstaklega illa í skóla.

Biden og Trump tókust þá á um viðbrögðin en Trump svaraði ásökunum Bidens með því að fullyrða að ríkisstjórn Obama hafi klúðrað viðbrögðum við svínaflensufaraldrinum. Biden benti þó á að töluvert færri hefðu látist í þeim faraldri og að efnahagskreppa hafi ekki skollið á þá.

Bóluefni, fjöldafundir og grímunotkun

Þá voru frambjóðendurnir spurðir út í bóluefni en Trump sagði að það væru nokkrar vikur í að bóluefni verði tilbúið. Biden aftur á móti benti á að flest bendi til að bóluefni verði ekki tilbúið fyrr en í lok árs en þá þurfi að huga að dreifingu og því fari það líklegast ekki í notkun fyrr en um mitt ár 2021, sem er í samræmi við spár Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar.

Trump var einnig spurður út í grímunotkun, sem hann hefur sjálfur gagnrýnt síðustu mánuði, en hann virtist hafa skipt um skoðun og segist nú ekkert hafa á móti grímum. Honum til varnar sagðist hann sjálfur nota grímu, og væri jafnvel með eina á sér, þó hann noti hana kannski ekki jafn mikið og Biden.

Því næst færðist umræðan að fjöldafundum Trumps en á meðan Trump hefur haldið rúmlega 20 fjöldafundi frá því að faraldurinn hófst hafa fundir Bidens verið færri og með mun minna sniði. Þegar Biden sakaði Trump um að huga ekki að öryggi stuðningsmanna sinna svaraði Trump með því að Biden hefði gert það sama ef hann hefði jafn marga stuðningsmenn.

Ítrekun á reglunum og skattagreiðslur

Eftir töluverð frammíköll, aðallega frá Trump, þurfti Wallace að reisa róminn og stöðva umræðurnar á ný. „Ég held að þjóðinni væri betur þjónað ef að við leyfum báðum aðilum að tala án truflana. Ég er að biðla til þín, herra, að gera það,“ sagði Wallace og vísaði þar til Trumps. Þegar Trump sagði að Biden hafði einnig truflað sig svaraði Wallace að í rauninni hefði Trump séð mestmegnis um truflanirnar.

Eftir innskot Wallace var Trump spurður út í tekjuskattsgreiðslur sínar en New York Times greindi frá því síðastliðinn sunnudag að Trump hefði aðeins greitt 750 Bandaríkjadali í skatt árið sem hann var kjörinn forseti og að hann hafi ekki greitt tekjuskatt í ellefu ár af þeim átján sem Times skoðaði.

Trump svaraði með því að hann hafi greitt milljónir í skatt og sagði umfjöllunina vera byggða á rangfærslum. Hann sagðist þó „ekki vilja borga skatta“ og virtist þversagnarkenndur í svörum sínum. Þrátt fyrir að Demókratar hafi lagt mikið upp úr skattgreiðslum Trumps staldraði Biden ekki of lengi við svör Trumps.

Hunter Biden

Þegar kappræðurnar voru hálfnaðar minntist Trump á son Bidens, Hunter, en Repúblikanar hafa ítrekað sakað Hunter um spillingu þegar hann starfaði í Úkraínu. Biden neitaði ásökunum Trump, talaði beint við myndavélina þegar hann ávarpaði bandarísku þjóðina og sagði; „Þetta er ekki um mína fjölskyldu eða fjölskylduna hans, þetta er um þína fjölskyldu.“

Þegar Trump hélt áfram að ýta á eftir svörum frá Biden virtist Biden hafa fengið nóg og beindi sjónunum að fjölskyldu Trumps. Hann sagðist geta „talað í allt kvöld“ um misferli fjölskyldumeðlima hans en að þetta væri þó ekki tíminn til þess.

Baráttan gegn kynþáttamisrétti og óeirðir

Eftir að báðir höfðu róast færðist umræðan til eins stærsta baráttumálsins fyrir kosningarnar, kynþáttamisrétti og óeirðir í Bandaríkjunum eftir dauða George Floyd. Trump hefur verið harðorður í garð mótmælenda og hefur fordæmt þá sem taka þátt í óeirðum. Hann ítrekaði að mikilvægt væri að fara eftir lögum og að lögregla spili þar mikilvægt hlutverk.

Biden tók undir með Trump, að því leitinu til að hann fordæmdi þá sem taka þátt í óeirðum, en ítrekaði að flest mótmælin hafi farið friðsamlega fram. Hann sakaði Trump um að ýta undir klofning í samfélaginu og hunsa baráttu svartra á meðan Trump sagði að Biden hefði sjálfur ýtt undir slíkan klofning á stjórnmálaferli sínum.

Eftir töluverð frammíköll sagði Biden að Trump væri rasisti sem hefði ekki gert neitt fyrir svarta Bandaríkjamenn í gegnum tíðina. Trump svaraði með því að hann væri að hleypa fólki úr fangelsi og sagði Biden hafa „komið jafn illa fram við samfélag svartra og nokkur annar.“

Þá sagði Trump að öfgafólk, á borð við meðlimi ANTIFA, væri að taka yfir Bandaríkin og að það þyrfti að koma í veg fyrir slíkt. Wallace nýtti þar tækifærið til þess að spyrja Trump hvort hann væri tilbúinn til þess að fordæma hvíta þjóðernissinna og öfgahægrisinna. Trump virtist gera allt til að koma spurningunni aftur yfir til öfgavinstrisinna og á endanum fordæmdi hann hópinn ekki beint.

Lögmæti kosninganna

Að lokum voru Biden og Trump spurðir út í lögmæti forsetakosninganna en vegna COVID-19 faraldursins er búist við að fjölmargir kjósendur greiði atkvæði utan kjörfundar með póstatkvæðum. Trump hefur gagnrýnt slíka atkvæðagreiðslu og haldið því fram að slíkt geti leitt til kosningasvindls, þrátt fyrir að slík atkvæðagreiðsla hafi síðustu ár verið notuð víða.

Trump hefur vegna þessa hótað því að hann muni ekki virða úrslit kosninganna, eitthvað sem aldrei hefur gerst í sögu Bandaríkjanna. Aðspurður um hvort hann komi til með að viðurkenna lögmæti kosninganna ítrekaði Trump fyrri fullyrðingar sínar og sagði að kosningarnar myndu einkennast af svindli. „Þetta verður hræðilegur hlutur fyrir þjóðina okkar. Þetta mun ekki enda vel.“

Biden aftur á móti sagðist tilbúinn til að virða úrslit kosninganna og vísaði til niðurstöðu sérfræðinga um að engar sannanir væru til staðar um að póstatkvæðagreiðsla leiði til kosningasvindls. „Mættu og kjóstu. Þú munt ákveða hver niðurstaða þessara kosninga verður,“ sagði Biden og ávarpaði þar Bandaríkjamenn.

Hér fyrir neðan má sjá kappræður næturinnar í heild sinni: