„Samandregið er þetta áfellisdómur yfir stjórnsýslunni, eftirlitinu og lagaumhverfinu sem fylgir þessari grein,“ segir Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar og meðlimur í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis en skýrsla Ríkisendurskoðunar um eftirlit stjórnsýslunnar með fiskeldi hér á landi var kynnt í gær.
Skýrslan var kynnt fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefndinni í gær þar sem kom fram að fyrri aðgerðir til að auka skilvirkni kerfisins hefðu ekki náð markmiðum. Ekki hafi tekist að skapa sátt innan greinarinnar og það hafi komið í ljós að allir aðilar málsins, hvort sem um ræði hagsmunaaðila, matvælaráðuneytið eða aðrar stofnanir, séu ósáttir við núverandi kerfi.
„Stjórnsýslan og eftirlitið er alltaf að eltast við uppbygginguna og nær aldrei utan um þetta. Annað sem mér finnst ámælisvert er að þarna kemur fram að hagsmunaaðilar komi að því að semja tiltekna þætti í regluverkinu. Þarna séu hagsmunaaðilar að hafa áhrif á regluverkið,“ segir Sigmar.
Hann gerir ráð fyrir að málið verði rætt á næstu þingfundum.
„Forsætisráðherra var spurð út í þetta í þinginu og hún talaði aðallega um að núverandi matvælaráðherra hefði vakið athygli á þessu.
Það er ekki það sem skiptir máli, núverandi ríkisstjórn er búin að sitja með þetta í fanginu í langan tíma,“ segir Sigmar.
Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingkona Pírata, sem er einnig í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, tók í sama streng og Sigmar.
„Niðurstaðan kom ekki beint á óvart, það hafa vísbendingar verið á lofti um að þetta væri í ólagi en þetta fór samt fram úr því sem við þorðum að óttast. Við höfum reynt að benda á þetta í áraraðir, hversu alvarleg staðan var án regluverks og núna sér maður afleiðingarnar,“ segir Arndís. Hún segir flækjustigið skapa kjöraðstæður til spillingar.
„Flækjustigið er að skapa umhverfi sem getum ekki kallað annað en kjöraðstæður fyrir spillingu. Þetta er búið að vera stefnulaust og rekið áfram af mikilli græðgi. Það eru miklir fjármunir í spilinu og mikið gróðatækifæri. Aðilar sem sjá tækifærið í hendi sér, að vaða áfram í stjórnlausu kerfi, sem er á ábyrgð stjórnvalda,“ segir Arndís og heldur áfram:
„Það eru vísbendingar um að aðilar séu vísvitandi að koma í veg fyrir að eftirliti sé sinnt, það er sláandi og að það séu engin úrræði við því,“ segir Arndís