Falcon 9 geimflaug sem SpaceX skaut upp frá Flórída í febrúar 2015 lætur ekki að stjórn og hefur verið í óreiðukenndu flugi um jörðina frá því að hún kláraði upprunalegt verkefni sitt. Núna er hún talin hafa tekið stefnu í átt að tunglinu og muni brotlenda þar á næstu vikum, samkvæmt frétt frá The Guardian.
Flaugin var upprunalega skotin upp til að senda veðurtungl til Lagrange point, staðsetning úti í geim í beinni sjónlínu við sólina sem er ekki undir áhrifum af þyngdarafli og er um fjórum sinnum lengra frá jörðinni en tunglið.
Fyrri hluti ferðarinnar gekk vel, flaugin sleppti veðurtunglinu og senti það á siglingu um geiminn í áttina að Lagrange point. En á þeim tímapunkti átti hún ekki nægilega mikið eldsneyti eftir til að koma aftur til jarðarinnar og gat ekki komist undan þyngdarafli jarðarinnar og tunglsins.
Þegar hingað er komið er flaugin svo gott sem geimrusl, fjögra tonna flykki á flakki um geiminn. Núna er talið að leið flaugarinnar liggi til tunglsins þar sem það muni brotlenda 4. mars næstkomandi á 2,58 kílómetra hraða á sekúndu.
Á næstu vikum verður fylgst með flauginni og fundin nákvæm staðsetning og tímasetning brotlendingarinnar. Ólíklegt er að áreksturinn muni sjást frá jörðinni.
Geimvísindamanninum Jonathan McDowell þykir ekki mikið til árekstursins koma og segir í færslu á Twitter að það sé „áhugavert en ekki stórmál."
For those asking: yes, an old Falcon 9 second stage left in high orbit in 2015 is going to hit the moon on March 4. It's interesting, but not a big deal.
— Jonathan McDowell (@planet4589) January 25, 2022