Falcon 9 geim­flaug sem SpaceX skaut upp frá Flórída í febrúar 2015 lætur ekki að stjórn og hefur verið í ó­­reiðu­­kenndu flugi um jörðina frá því að hún kláraði upp­­runa­­legt verk­efni sitt. Núna er hún talin hafa tekið stefnu í átt að tunglinu og muni brot­­lenda þar á næstu vikum, sam­­kvæmt frétt frá The Guar­dian.

Flaugin var upp­­runa­­lega skotin upp til að senda veður­­tungl til Lagrange point, stað­­setning úti í geim í beinni sjón­línu við sólina sem er ekki undir á­hrifum af þyngdar­afli og er um fjórum sinnum lengra frá jörðinni en tunglið.

Fyrri hluti ferðarinnar gekk vel, flaugin sleppti veður­­tunglinu og senti það á siglingu um geiminn í áttina að Lagrange point. En á þeim tíma­­punkti átti hún ekki nægi­­lega mikið elds­neyti eftir til að koma aftur til jarðarinnar og gat ekki komist undan þyngdar­afli jarðarinnar og tunglsins.

Þegar hingað er komið er flaugin svo gott sem geimrusl, fjögra tonna flykki á flakki um geiminn. Núna er talið að leið flaugarinnar liggi til tunglsins þar sem það muni brot­­lenda 4. mars næst­komandi á 2,58 kíló­­metra hraða á sekúndu.

Á næstu vikum verður fylgst með flauginni og fundin ná­­kvæm stað­­setning og tíma­­setning brot­­lendingarinnar. Ó­­lík­­legt er að á­­reksturinn muni sjást frá jörðinni.

Geimvísindamanninum Jonathan McDowell þykir ekki mikið til árekstursins koma og segir í færslu á Twitter að það sé „áhugavert en ekki stórmál."