Enn eru hátt í sextíu stjórnarfrumvörp til umræðu í nefndum Alþingis en starfsáætlun gerir ráð fyrir að þingstörfum ljúki 10. júní.
Óraunhæft er að gera ráð fyrir því að öll málin sem til meðferðar eru komist á leiðarenda og verði afgreidd sem lög á þessu kjörtímabili, ýmist vegna tímaskorts eða vegna ólíkra pólitískra sjónarmiða innan stjórnarmeirihlutans.
Eitt af umdeildustu málum þingvetrarins er frumvarp umhverfisráðherra um hálendisþjóðgarð. Fjölmargar umsagnir bárust og eru mjög skiptar skoðanir um það í stjórnarmeirihlutanum en efasemdir um það munu háværastar innan Framsóknarflokksins.
Málið er enn til umræðu í umhverfis- og samgöngunefnd en Kolbeinn Óttarsson Proppé, framsögumaður málsins, hefur enn ekki gefið upp von um að málið verði afgreitt.
„Ég hef verið að vinna að því að finna leið sem við getum staðið saman að til að uppfylla stjórnarsáttmálann að þessu leyti,“ segir Kolbeinn.
Kolbeinn er einnig framsögumaður stjórnarskrárfrumvarps forsætisráðherra sem er til meðferðar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.
„Við höfum klárað gestakomur í því máli og höfum verið með það til efnislegrar umræðu á nokkrum fundum. Ég hef svo óskað eftir því að menn komi efnislegum athugasemdum um málið til mín og það á eftir að koma í ljós hvernig unnt verður afgreiða það frá nefndinni.“

Færi svo að þingið nái saman um breytingar á stjórnarskrá, þarf að klára samþykkt þeirra í haust. Kveður stjórnarskráin á um að þing sé rofið og boðað til kosninga hafi frumvarp um breytingar á stjórnarskrá verið samþykkt.
Þá eru einnig nokkuð skiptar skoðanir um frumvarp heilbrigðisráðherra um afglæpavæðingu neysluskammta.
Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins leggur heilbrigðisráðherra mikla áherslu á að klára málið enda féll það á atkvæðum í þinginu þegar Píratar lögðu það fram á þeim forsendum að eðlilegast væri að málið yrði unnið betur af hálfu ríkisstjórnarinnar. Málið er hins vegar ekki óumdeilt í þinginu og ekki innan meirihlutans.
Að sögn Ólafs Þórs Gunnarssonar, sem heldur utan um málið í velferðarnefnd, er það enn til meðferðar þar. Það séu vissulega skiptar skoðanir um málið í nefndinni en engu að síður sé stefnt að því að nefndin afgreiði um það nefndarálit.
Birgir Ármannsson er framsögumaður fjögurra mála í allsherjar- og menntamálanefnd. Þau varða almannavarnir, réttarstöðu brotaþola í lögum um meðferð sakamála, breytingu á áfengislögum og breytingar á útlendingalögum. „Markmiðið er auðvitað að klára þessi mál,“ segir Birgir en lætur þess þó getið að ákveðin pólitísk óvissa sé um hluta þeirra.
Aðspurður segir hann það einkum eiga við um áfengismálið og útlendingamálið.