Fundað var stíft í stjórnarráðinu í gær vegna stöðunnar í efnahagslífinu. Ríkisstjórnin fundaði bæði með formönnum allra stjórnmálaflokka og lykilfólki í ferðaþjónustu. Þá fundar ríkisstjórnin með aðilum vinnumarkaðarins í dag.

Ríkisstjórnin kom saman í gærkvöldi til að afgreiða frumvarp um frestun gjalddaga. Frumvarpið verður afgreitt á Alþingi í dag þar sem umræddir gjalddagar eru strax eftir helgi. Samkomulag er við stjórnarandstöðuna um þetta.

Á næstu dögum verða einnig lögð fram frumvörp sem varða launatryggingu fyrir þá sem þurfa að fara í sóttkví. Þá er unnið að endurskoðun fjármálastefnunnar enda forsendur hennar brostnar og fjármálaáætlun, sem leggja átti fram á næstu dögum, verður ekki lögð fram fyrr en í maí, þegar líkur standa til að nauðsynlegar forsendur hennar geti legið fyrir.

Ríkisstjórnin fundar í dag eins og venja er á föstudögum þar sem fleiri mál í tengslum við aðgerðir stjórnvalda verða rædd.

Tímabundnar hremmingar

Í umræðum á Alþingi í gær lögðu ráðherrar ríkisstjórnarinnar áherslu á að hremmingarnar, bæði vegna kórónaveirunnar og ferðabanns Bandaríkjanna, væru tímabundnar og að Íslendingar hefðu ekki ástæðu til annars en að vera bjartsýnir til lengri tíma. Staða ríkissjóðs væri góð og innviðir traustir.

„Við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að tryggja að þessar hremmingar verði tímabundnar og íslenskt samfélag standi sterkara á eftir en áður,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í umræðum um aðgerðir í efnahagsmálum á Alþingi í gær.

„Síðan þurfum við að leggja drög að viðbrögðum til næstu ára til þess að tryggja að við komum ekki aðeins standandi úr þessum hremmingum heldur getum brátt farið aftur að blása til sóknar eftir að við munum núna pakka í vörn.“

Katrín Jakobsdóttir flutti Alþingi skýrslu í gær um efnahagsaðgerðir stjórnvalda.
Fréttablaðið/Anton Brink

Sitja ekki með hendur í skauti

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði að þótt ekki hefði öllu verið svarað um fyrirhugaðar aðgerðir ríkisstjórnarinnar, myndi hún ekki sitja með hendur í skauti. Taka þyrfti stórar ákvarðanir sem ekki gæfist mikill tími til að hugsa um, heldur þyrfti að bregðast við.

„Ég hef trú á því að mestu mistökin sem við gætum gert hér í þinginu væri að ganga allt of skammt. Það væri þá betra fyrir okkur að nýta þá góðu stöðu sem við búum yfir til að gera rétt rúmlega það sem þarf, vegna þess að sameiginlega tjónið af því að gera of lítið of seint getur orðið miklu meira heldur en tilkostnaðurinn af því að gera aðeins of mikið,“ sagði Bjarni.

Hann tók dæmi um tugi milljarða sem eru á gjalddaga á mánudaginn og ákvarðanir sem ríkisstjórn og þing standa frammi fyrir: „Á að veita hlutfallslegan afslátt? Á að setja þak á fjárhæðir í greiðslufrestun? Þetta eru ákvarðanir sem við erum að taka til skoðunar í dag og munum leggja fyrir þingið, vonandi á á morgun.“

Ráðherra ferðamála vék að mögulegum áhrifum ferðabanns Bandaríkjanna og sagði líklegt að það myndi draga úr ferðum þaðan til Evrópu þótt ferðabannið gildi ekki um Bandaríkjamenn sjálfa.

Bandaríkjamenn tæpur fjórðungur ferðamanna

„Bandaríkjamenn hafa undanfarin ár verið fjölmennastir í hópi ferðamanna til landsins. Í fyrra voru þeir tæp hálf milljón eða næstum fjórðungur ferðamanna. Ef við skoðum þá tilteknu mánuði sem um ræðir komu 38.000 Bandaríkjamenn til Íslands í fyrra í mars og 26.000 í apríl. Þó að 30.000 manns séu ekki nema 1,5 prósent af árlegum fjölda ferðamanna til landsins eru þetta mjög miklir hagsmunir og við það bætast að sjálfsögðu áhrif ferðamannsins á flug Icelandair yfir Atlantshafið,“ sagði Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir og vék að fyrstu viðbrögðum úr atvinnugreininni. „Við höfum heyrt dæmi um allt að 50 prósent samdrátt hjá einstaka fyrirtækjum fyrir sumarið og áhrifin verða gríðarlega mikil.“

Sagði ráðherra til skoðunar að atvinnuleysistryggingar brúi bil á móti lækkuðu starfshlutfalli til að draga úr fjöldauppsögnum hjá fyrirtækjum í ferðaþjónustu. „Við þekkjum það úrræði úr bankahruninu og hljótum að sjálfsögðu að skoða það alvarlega. Við erum í aðstæðum sem kalla á afgerandi viðbrögð.