Einar Bragi Bragason, saxófónleikari og einn stofnenda hljómsveitarinnar Stjórnarinnar var jarðsunginn í dag frá Vídalínskirkju en hann féll frá aðeins 54 ára gamall fyrr í mánuðinum.

Einar Bragi átti farsælan tónlistarferil að baki og kom víða við en hann var starfandi skólastjóri Tónlistarskóla Vesturbyggðar þegar hann féll frá. Einar Bragi lést eftir hjartaáfall.

Hljómsveitarmeðlimir Einars Braga úr Stjórninni minntust félaga síns í hjartnæmum pistli í dag og minnast dýrmætra stunda með honum, ekki síst á 30 ára afmælistónleikum Stjórnarinnar sem haldnir voru í Háskólabíói í fyrra.

Fagmaður fram í fingurgóma

„Í dag kveðjum við góðan vin og samstarfsmann.

Strax á unglingsárunum kom í ljós hversu flinkur hann var á saxófóninn, enda leið ekki á löngu þar til hann var orðinn einn af eftirsóttustu hljóðfæraleikurum landsins.

Einar var fagmaður fram í fingurgóma, vandvirkur og mætti ávallt einstaklega vel undirbúinn, hvort sem var á æfingar, í hljóðver eða á tónleika. Hann hafði ástríðu fyrir starfinu og lagði sig allan fram.“

Álagið mikið á upphafsárum Stjórnarinnar

„Við spiluðum allar helgar yfri vetrartímann og á sumrin ferðuðumst við um landið þvert og endilangt. Á þessum ferðalögum gaf Einar Bragi mikið af sér, enda mikill fjörkálfur og húmoristi. Hann átti það til að vera stríðinn en aldrei þannig að það særði.

Einar blómstraði í starfi sínu sem skólastjóri Tónlistarskóla Vesturbyggðar og var hamingjusamur í sínu einkalífi. …Við vorum svo lánsöm að eiga dýrmætar stundir með Einari Braga í fyrra þegar Stjórnin fagnaði 30 afmæli. Ekki óraði okkur fyrir að þetta yrði síðasta skiptið sem við spiluðum öll saman. Þetta eru dýrmætar minningar en jafnframt áminning um að njóta hvers dags og alls þess sem lífið hefur upp á að bjóða.“