Fara þarf aftur til metáranna 2011 og 2012 til að finna eins hátt verð á bensínlítra, allt að 275 krónur. Þetta kemur illa við neytendur, ekki síst láglaunafólk. Félag íslenskra bifreiðaeigenda telur ólíklegt að verð lækki á næstunni.

Orkuskipti úr jarðefnaeldsneyti yfir í vistvæna orkugjafa eru eitt brýnasta mál samtímans, að sögn vísindamanna. Því vakna spurningar um hvort hærra bensínverð kunni að draga úr akstri. Árni Finnsson, hjá Náttúruverndarsamtökum Íslands, segir erfitt að meta það, honum sé til að mynda ekki kunnugt um að áhrif hækkunar kolefnisgjalds á akstur innanlands hafi verið rannsökuð.

„Mér er ekki kunnugt um að nein rannsókn hafi verið gerð á áhrifum þessarar hækkunar á kaupmátt, neyslu eða losun gróðurhúsalofttegunda frá vegasamgöngum. Allir stjórnmálaflokkar sem tala fyrir hækkun kolefnisgjalds mæla einnig fyrir réttlátri skiptingu byrða þannig að hinir tekjuminni taki ekki meiri ábyrgð á losun en þeir neytendur sem losa mest, það er að segja hinir efnuðu,“ segir hann.

Árni segir að burtséð frá bensínhækkunum megi kolefnisgjald á eldsneyti ekki bitna á láglaunahópum. Fráfarandi ríkisstjórn hafi lagt höfuðáherslu á að niðurgreiða nýinnflutta rafbíla og tengil­tvinn­bíla, sem einungis hinir tekjuhærri geta keypt. Á hinn bóginn hafi ríkisstjórnarflokkarnir lagst gegn hækkunum sem gætu bitnað á olíufélögum eða bílaumboðum. „Bílaumboð hafa mestar tekjur af sölu stórra jeppa. Þau hagnast síður á sölu sparneytinna bíla.“