„Það hefur verið merkilegt að fylgjast með því hvað ríkisstjórnin hefur staðið af sér mikinn ólgusjó,“ segir Eva H. Önnudóttir, dósent í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. Stjórninni hafi oft verið spáð falli, en hún hafi þurft að fást við gríðarlega stór og erfið verkefni það sem af er kjörtímabilinu, og sérstaklega á nýliðnum vetri.

„Þrátt fyrir að um ólíka flokka sé að ræða hefur hún sýnt styrk sinn og í því samhengi má segja að sú hefð, að hver ráðherra fari með æðsta vald í sínum málaflokki hjálpi til, því ráðherrarnir eru ekki mikið að skipta sér opinberlega af málefnum ráðuneyta samstarfsflokkanna,“ segir Eva og bætir við: „Það hjálpar kannski ríkisstjórn sem er með svona mikla breidd frá vinstri til hægri.“

COVID-19 setti mjög mark sitt á nýliðinn þingvetur, en fjölmörg mál voru afgreidd í tengslum við faraldurinn. Þannig voru þrjú fjáraukalagafrumvörp samþykkt, vegna ýmissa aðgerða í efnahagsmálum.

Stórum málum á borð við frumvarp um Hálendisþjóðgarð og rammaáætlun var frestað fram á haust vegna ástandsins. Þá dagaði önnur stór mál uppi og bíða því næsta þingvetrar sem verður sá síðasti á yfirstandandi kjörtímabili. Búast má við að hann verði annasamur, eins og jafnan í aðdraganda kosninga, en auk þeirra mála sem ráðherrar eiga eftir að ljúka hefur forsætisráðherra boðað frumvarp um breytingar á stjórnarskrá í samræmi við endurskoðunaráætlun.

Eva H. Önnudóttir, dósent í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands
Fréttablaðið/Heiða

Eva segir ekki ólíklegt að framundan sé stærsta prófraun ríkisstjórnarinnar á kjörtímabilinu. „Framundan eru erfiðir tímar og efnahagsþrengingar. Ríkisstjórnin hefur gríðarlegu ábyrgðarhlutverki að gegna hvað varðar viðbrögð við þeim,“ segir Eva og bætir við: „Þegar lagt verður mat á störf þessarar ríkisstjórnar, mun líklega skipta veigamiklu máli hvernig hún tekst á við þær þrengingar sem framundan eru, hvort heldur er á sviði heilbrigðismála eða efnahagsmála.“

Þótt almenn ánægja hafi verið með viðbrögð stjórnvalda til að hefta útbreiðslu faraldursins, sé ekki gefið að sama samstaða verði um viðbrögð í efnahags- og atvinnumálum. „Þar má vel búast við skýrari átakalínum flokkanna, hvort sem þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu,“ segir Eva.

150. löggjafarþingið í tölum

  • Alls var haldinn 131 þingfundur og dreifðust fundirnir á 104 þingfundadaga. Þingfundir stóðu samtals í 672 og hálfa klukkustund sem jafngildir rúmlega 28 sólarhringum. Lengsti þingfundurinn stóð í rúmar 16 klukkustundir en sá stysti í um eina mínútu.
  • Alþingi samþykkti 106 stjórnarfrumvörp af þeim 127 sem lögð voru fram en aðeins sex frumvörp frá þingmönnum af 106. Allar þingsályktunartillögur sem fluttar voru af ráðherrum voru samþykktar en þær voru 31 talsins. Hins vegar voru tíu tillögur af 124 frá þingmönnum samþykktar.
  • Þá svöruðu ráðherrar 52 fyrirspurnum munnlega og 304 skriflega. Þegar þingi var frestað var enn níu munnlegum fyrirspurnum ósvarað og 148 skriflegum. Sjö skriflegum fyrirspurnum sem lagðar voru fram fyrir áramót var enn ósvarað.
  • Lengst hefur Ólafur Ísleifsson þurft að bíða en fyrirspurn hans til utanríkisráðherra um forgangsáhrif EES-gerða í íslenskum rétti var lögð fram 16. september. Þingforseti tilkynnti fimmtán sinnum um að óskað hefði verið eftir fresti til að veita svarið.