„Við viljum að leikhúsin verði opnuð upp á gátt og það er okkar tilfinning að allur almenningur vilji það líka,“ segir Magnús Geir Þórðarson þjóðleikhússtjóri en hann bendir á að mikill munur sé á því að leyfa fólki að njóta lista í númeruðum sætum í 500 manna vel loftræstum menningarhúsum en í mannþrönginni á fjölmennum útihátíðum.

„Leikhúsin hafa axlað sína ábyrgð af festu og farið í einu og öllu að ráðum sóttvarnayfirvalda sem hefur bitnað harkalega á rekstri þeirra og listrænu starfi, en nú þegar allur þorri þjóðarinnar hefur verið bólusettur er tímabært að breyta um kúrs,“ segir Magnús Geir.

Hann minnir á, máli sínu til stuðnings, að nágrannalöndin hafi heimilað leikhússtarfsemi á síðustu vikum, á Englandi séu húsin galopin, sömuleiðis í Finnlandi og Danmörku. Í Svíþjóð og Noregi séu smávegis takmarkanir, líkt og á Spáni þar sem megi nýta 75 prósent sæta og í Frakklandi sé allt opið en gestir skuli nota grímur. „Því ættu allt aðrar og harðari reglur að gilda á Íslandi?“ spyr Magnús Geir.

Magnús Geir Þórðarson þjóðleikhússtjóri.

Svanhildur Konráðsdóttir, forstjóri tónleika- og ráðstefnuhússins Hörpu, tekur í sama streng og Magnús Geir en fjöldatakmarkanir í húsinu og tímabundnar lokanir í hálft annað ár hafa haft alvarleg áhrif á rekstur þess.

„Ég kalla eftir afnámi nándartakmarkana, bæði tveggja metra reglan og eins metra reglan hefur sett okkur stólinn fyrir dyrnar í hálft annað ár – og vel að merkja, við höfum fylgt henni af ábyrgð á meðan þjóðin var óbólusett, en núna hljótum við að hugsa dæmið upp á nýtt eftir að stærstur hluti þjóðarinnar er fullbólusettur,“ segir Svanhildur.

Svanhildur Konráðsdóttir er forstjóri Hörpu.
Fréttablaðið/ERNIR

„Það má vel halda grímuskyldunni áfram og skrá gesti í númeruð sæti, en það er kominn tími til að þétta raðirnar og nýta fleiri gesti, til dæmis með því að gestir framvísi vottorði um neikvætt hraðpróf.“ Hún bendir á að 350 viðburðir séu bókaðir í Hörpu frá ágúst fram til ársloka, þar á meðal margir uppseldir atburðir í Eldborg sem sumum hefur verið aflýst í fjórgang. „Við verðum að læra að lifa með veirunni og sýna jafnt ábyrgð og sveigjanleika.“

Ekki er tekið jafn djúpt í árinni hjá Listasafni Reykjavíkur. „Það er ekki endilega svo að við hrópum á breytingar og afléttingar hamla í sýningarsölum okkar, enda hefur okkur tekist ágætlega upp að stýra straumi gestanna innan okkur veggja,“ segir Ólöf Kristín Sigurðardóttir, forstöðumaður Listasafnsins, sem rekur sýningarsalina í Hafnarhúsinu í miðborg Reykjavíkur, á Kjarvalsstöðum á Klambratúni og í Ásmundarsafni í Sigtúni.

„Við megum vera með 75 prósent af leyfilegum hámarksfjölda gesta í húsunum okkar og það hefur dugað okkur ágætlega, enda hefur aðsókn útlendinga að söfnunum dregist svo til algerlega saman frá því snemma á síðasta ári,“ segir Ólöf Kristín enn fremur.

Ólöf Kristín Sigurðardóttir, forstöðumaður Listasafns Reykjavíkur.
Fréttablaðið/Valli

„En auðvitað hefur sá samdráttur haft mjög alvarleg áhrif á rekstur okkar,“ heldur Ólöf áfram og bendir á að árið 2019 hafi 80 prósent gesta Hafnarhússins verið útlendingar, um 70 prósent þeirra sem sóttu Ásmundarsafn og 50 prósent þeirra sem skoðuðu sig um á Kjarvalsstöðum. „En á móti kemur að íslenskum gestum safnanna hefur fjölgað mjög á þessum tíma – og það er gleðilegt.“