Stjórnendur Isavia ANS, dótturfélags Isavia sem sér um flugumferðarstjórnun, telja ekki tilefni til að taka á sig launalækkun.

Öllum hundrað flugumferðarstjórum sem stýra umferð um íslenska flugstjórnarsvæðið fyrir dótturfélag Isavia var sagt upp störfum á miðvikudag. Um er að ræða umfangsmestu uppsagnir í sögu félagsins.

Starfsálag hafi ekki minnkað hjá stjórnendum

Aðspurður hvort stjórnendur hjá Isavia ætli sér að taka á sig tímabundna launalækkun í ljósi stöðunnar segir Ásgeir Pálsson, framkvæmdastjóri Isavia ANS, að starfsálagið hafi ekki minnkað hjá stjórnendum.

„Ég get bara talað fyrir Isavia ANS en við höfum ekki lækkað launin hjá neinum. Þar sem verkefni hafa fallið niður þá höfum við lækkað starfshlutfall en ekki launin. Það hefur ekki minnkað starfsálagið á stjórnendum og ekki heldur hjá tæknimönnum,“ segir Ásgeir í samtali við Fréttablaðið.

Þórdís Sigurðardóttir, forstöðumaður Isavia ANS, segir að hátt í tíu stjórnendum innan Isavia ANS hafi verið sagt upp, þar á meðal deildarstjórum.

„Það eru skipulagsbreytingar. Það eru ýmsar sparnaðaraðgerðir í gangi varðandi verkefni. Það er verið að segja öllum upp, öllum flugumferðastjórum og meðal annars flugumferðarstjórum sem eru í stjórnunarstöðum. Þeir eru ekki undanskildir,“ segir Þórdís Sigurðardóttir.

Ekki tilefni til að lækka laun yfirmanna

Aðspurður hvort stjórnendur þiggi greiðslu fyrir óunna yfirvinnu sagði Ásgeir:

„Það er ekkert sem heitir það. Flestir yfirmenn eru á fastlaunasamningum, þannig þeir eru með föst laun og inni í því telst að þeir eigi að vinna þá yfirvinnu sem þörf er á innan skynsamlegra marka. Þannig það eru ekki sér yfirvinnugreiðslur.“

Sömuleiðis segir Þórdís að aðilar í stjórnunarstöðum séu á fastlaunasamningum og að yfirvinna sé inni í því.

Þórdís Sigurðardóttir, forstjóri Isavia ANS og Ásgeir Pálsson, framkvæmdastjóri Isavia ANS.

Þér þykir þá ekki tilefni til að lækka laun yfirmanna tímabundið í þessari stöðu?

„Nei, ekki eins og er. En við höfum ekki lækkað nein laun, við höfum bara minnkað vinnu; lækkað starfshlutfall þar sem eru ekki verkefni,“ segir Ásgeir.