Deildar­stjóri sam­skipta­deildar Land­spítalans hefur sent þeim tæp­lega þrjú hundruð stjórn­endum Land­spítalans skila­boð um að beina öllum fyrir­spurnum frá fjöl­miðlum til sam­skipta­sviðs. Vísir segir frá.

Heimildir Vísis herma að tölvu­pósturinn hafi verið sendur í gær­kvöldi og fann frétta­stofan fyrir því að erfið­lega hafi gengið að fá svör frá stjórn­endum Land­spítalans í dag.

Stjórn­endum var þannig al­farið ráðið frá því að svara fjöl­miðlum og áttu þess í stað að beina öllum fyrir­spurnum á Stefán Hrafn Haga­lín deildar­stjóra sam­skipta­deildar Land­spítalans.

Hér fyrir neðan má sjá tölvu­póstinn í heild sinni en þar eru fjöl­miðlar til dæmis upp­nefndir sem skratta­kollar.

Tölvupósturinn:

Góða kvöldið, kæru stjórn­endur!

Við erum að­eins að lenda í því í far­aldrinum að fjöl­miðlar hafa komist yfir síma­númer stjórn­enda og eru að hringja í þá beint með fyrir­spurnir.

Stundum eru þetta ein­faldar og auð­svaraðar beiðnir um upp­lýsingar og stöðu, en oftar en ekki flóknar fyrir­spurnir um við­kvæm mál­efni sem krefjast yfir­legu.

Þið standið ykkur auð­vitað frá­bær­lega í öllum ykkar svörum, hart­nær undan­tekningar­laust, og auð­vitað svarið þið alltaf eftir bestu vitund og oft til að létta af öðrum þeirri kvöð.

En með þessu móti tapið þið að sjálf­sögðu bæði hvíld (þessir skratta­kollar hringja 24/7) og spítalinn allri yfir­sýn og stefnu­festu.

Við fáum 5-10 fyrir­spurnir til ykkar dag­lega með þessum hætti og annað eins kemur til mín beint.

Safnast þegar saman kemur!

Ég vil því biðja ykkur að vísa alltaf og öllum fyrir­spurnum fjöl­miðla – sama hverjum -- á mig og ég út­deili þeim síðan aftur á þau ykkar sem eru til svara og laus hverju sinni.

Einnig er hrein­skilnis­lega yfir­höfuð á­gætis regla að svara bara alls ekki ekki beinum sím­tölum fjöl­miðla (Mogginn er 569…, RÚV er 512… os­frv, þið kunnið þetta).

Blaða­menn og fjöl­miðlar vita ALLIR al­gjör­lega 100% hvert þau eiga og geta leitað þegar þið svarið ekki beint, ekki hafa á­hyggjur af neinu öðru.

Þetta gildir sér­stak­lega um þau ykkar sem standa næst stjórn mála í far­aldrinum og þurfið kannski mest á hvíld að halda.

Nú skulið þið hvíla ykkur.

Bar­áttu­kveðjur,

-Stefán Hrafn