Anna Dóra Sæþórs­dóttir, fyrr­verandi for­seti Ferða­fé­lags Ís­lands, segir ó­þægi­legt að horfa upp á stjórn fé­lagsins tala eins og öll vanda­mál megi rekja til hennar og að stjórnin hafi í­trekað reynt að leiða hana til lykta. „Ég kannast ekki við þær til­raunir stjórnar, þvert á móti,“ segir hún í Face­book-færslu.

Hún segist stolt yfir því sem hún á­orkaði á síðast­liðnu ári, þrátt fyrir mikinn mót­vind og and­stöðu stjórnar.

„Sig­rún [Val­bergs­dóttir, for­seti Ferða­fé­lags Ís­lands] hefur jafn­vel gefið í skyn að af­sögn mína megi rekja til fyrir­hugaðrar van­trausts­yfir­lýsingar stjórnar. Það er hins vegar þannig að ég heyrði fyrst um þá van­trausts­til­lögu í fjöl­miðlum eftir að ég birti af­sagnar­bréf mitt,“ segir Anna Dóra.

Rangt að mál um kyn­ferðis­lega á­reitni hafi verið með­höndluð rétt

Anna Dóra segir það rangt að mál sem varða kyn­ferðis­lega á­reitni, kyn­bundið of­beldi eða ein­elti hafi verið með­höndluð í sam­ræmi við verk­reglur fé­lagsins, eins og Sig­rún Val­bergs­dóttir, nú­verandi for­seti, hafði haldið fram.

„Það var ekki fyrr en ég beitti mér, í ó­þökk annars stjórnar­fólks, að tekið var á þessum málum,“ segir Anna Dóra.

„Kyn­ferðis­leg á­reitni, kyn­bundið of­beldi og ein­elti verður að upp­ræta í ís­lensku sam­fé­lagi og ég vona að þessi erfiða um­ræða um mál­efni ferða­fé­lagsins megi verða hluti af þeirri upp­rætingu.“

Leyfðu fararstjóra að starfa þrátt fyrir ásakanir

„Þegar ég tók við sem forseti komu í ljós mál sem ekki hafði verið tekið á, þrátt fyrir að verklagsreglur félagsins kvæðu á um annað,“ segir Anna Dóra.

„Eitt snerti fararstjóra sem hafði ítrekað gerst brotlegur á siðareglum félagsins í samskiptum við kvenkyns farþega í ferðum. Annað snerti stjórnarmann sem hafði verið ásakaður um alvarlegt kynferðislegt ofbeldi og áreitni, bæði í ferðum á vegum félagsins og utan þess.“

Hún segir framkvæmdastjóra og núverandi forseta hafa verið gert kunnugt um þessar ásakanir í nokkur ár án þess að bregðast við þeim á nokkurn hátt.

„Þvert á móti fengu þessir aðilar að halda áfram að starfa sem fararstjórar á vegum félagsins. Það var ekki fyrr en ég beitti mér, í óþökk annars stjórnarfólks, að tekið var á þessum málum,“ segir hún.

Treysti sér ekki til að mæta á stjórnar­fund

Anna Dóra segir full­yrðingar Sig­rúnar um að Anna Dóra hafi ekki viljað mæta á stjórnar­fund í júní vera réttar. „Eftir margra mánaða ein­elti og úti­lokun af hálfu stjórnar og fram­kvæmda­stjóra var mér farið að líða svo illa að ég treysti mér ekki til að hitta þennan hóp.“

„Mér finnst ekki þægi­legt að tala um þetta, en ég var með stöðugan kvíða­hnút og gat ekki sofið. Ég treysti mér því ekki til að mæta á þennan fund. Ég lét þau vita af því og að á­stæðan væri ein­elti og úti­lokun af þeirra hálfu,“ segir Anna Dóra.

Þá hafi hún verið búin að skrifa af­sagnar­bréf sitt og meiri­hluti stjórnar hafi vitað að því bréfi. Hún hafi hins vegar á­kveðið að gera eina at­lögu enn til að leysa málin.

Hún hafi þá gert tvær kröfur svo hún gæti haldið á­fram sem for­seti fé­lagsins. „Annars vegar að Tómas Guð­bjarts­son segði sig úr stjórn en hann hafði gengið hvað harðast fram með dóna­skap í minn garð, og hins vegar að ráðinn yrði nýr fram­kvæmda­stjóri, en á þeim tíma­punkti hafði ég misst trúna á Páli bæði vegna bæði vegna þess hversu illa hafði gengið að fá svör við spurningum sem vörðuðu rekstur fé­lagsins og ekki síður vegna við­horfa hans til met­oo-mála.“

Hún hafi látið stjórnina vita að hún myndi segja af sér ef ekki næðist sam­staða um þessar að­gerðir.

Var sökuð um ein­elti eftir að hún greindi frá ein­elti

Í fram­haldi af fyrr­greindum sam­skiptum Önnu Dóru og stjórnarinnar sagði fram­kvæmda­stjóri fé­lagsins að hún hefði beitt sig ein­elti. Sú kvörtun hafi hins vegar borist eftir að Anna Dóra á­sakaði stjórnina um ein­elti í sinn garð.

„Þá kvörtun dró fram­kvæmda­stjórinn til baka snemma í þessum mánuði og vísaði í fjöl­miðlum til ein­hvers sam­komu­lags við mig. Ekki er um neitt slíkt sam­komu­lag að ræða, enda hef ég ekki dregið til baka kvörtun mína um ein­elti stjórnar og fram­kvæmda­stjóra í minn garð,“ segir hún.

Af og frá að hún hafi ein­hliða viljað skipta um fram­kvæmda­stjóra

Í bréfi sem fé­lags­fólk fékk sagði for­seti fé­lagsins frá því að Anna Dóra hafi ein­hliða viljað skipta um fram­kvæmda­stjóra og hafið við­ræður við hann án vitundar stjórnar. Anna Dóra segir það vera af og frá.

„Í mars hringdi fram­kvæmda­stjórinn í mig og sagði starfi sínu lausu. Á­stæðurnar sem hann nefndi voru þær að hann væri kominn með leiða á vinnunni og að honum þætti verk­efnin sem hann var að vinna við ekki skemmti­leg. Ég átti ekki í neinum við­ræðum við fram­kvæmda­stjórann um starfs­lok, nema til að bregðast við þessari upp­sögn hans.“
Málin hafi síðan verið rædd á stjórnar­fundi, en þar hafi komið fram ó­líkar meiningar um málið.

„Ég dreg þó ekki dul á það að ég hef í nokkurn tíma talið gott fyrir fé­lagið að ráðinn yrði nýr fram­kvæmda­stjóri, m.a. vegna þeirra á­stæðna sem raktar eru að framan,“ segir Anna Dóra.

Facebook-færslu Önnu Dóru má lesa í heild sinni hér að neðan.