Aðalheiður Ámundadóttir
aa@frettabladid.is
Sunnudagur 18. apríl 2021
05.14 GMT

Vinstri græn og Framsókn eru nú í óða önn að raða á lista í kjördæmum sínum en prófkjör eru ekki hafin í þriðja stjórnarflokknum, Sjálfstæðisflokknum.

Vinstri græn hafa lokið forvali í þremur kjördæmum og Framsókn í tveimur. Í öllum tilvikum hafa sitjandi þingmenn flokkana beggja mátt þola vonbrigði.

Þingmenn sem ætla sér frekari frama í stjórnmálum en óbreytt þingsæti verða að tryggja sér oddvitasæti á lista. Það er í raun forsenda ráðherraembættis, formennsku í fastanefndum og yfirleitt formennsku í þingflokki. Það er ekki hlaupið að því fyrir þingmann í Reykjavík að ná frekari frama þegar í kjördæminu eru fyrir, kanónur eins og Katrín Jakobsdóttir og Svandís Svavarsdóttir. Enda alveg öruggt að verði flokkurinn í næstu ríkisstjórn, munu ekki veljast í hana fleiri en tveir þingmenn úr Reykjavík.

Margir vildu sæti Steingríms og Ara Trausta

Það var því ekki eingöngu flipp hjá Kolbeini Óttarssyni Proppé, sem er sitjandi þingmaður Reykjavíkurkjördæmis norður, að freista þess að verða oddviti í Suðurkjördæmi. Þar var opnaðist tækifæri eftir Ari Trausti Guðmundsson tilkynnti að hann ætlaði að láta gott heita eftir kjörtímabilið.

Það voru reyndar margir um sæti Ara á Suðurlandi og svo fór að Kolbeinn galt afhroð og skíttapaði fyrir þremur konum, lenti í fjórða sæti og á enga möguleika á þingsæti þar.

Í Norðausturkjördæmi lögðust margir undir felld þegar stærsta kanóna flokksins frá stofnun, Steingrímur J. Sigfússon, tilkynnti að hann ætlaði að hætta. Kolbeinn hefur eflaust íhugað kjördæmið alvarlega áður en hann ákvað að reyna Suðurkjördæmi en hann keypti sér hús á Siglufirði um svipað leiti og tilkynning Steingríms birtist.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, sem er þingmaður Norðausturkjördæmisins ásamt Steingrími, leit eðlilega svo á að hennar tími til forystu í kjördæminu væri kominn og gaf kost á sér í fyrsta sæti. Það gerði hins vegar líka Óli Halldórsson oddviti flokksins í bæjarpólitíkinni á Húsavík.

Bjarkey Olsen, formaður þingflokks VG hefur verið góður liðsmaður allt kjörtímabilið. Það dugir henni þó ekki til forystu í kjördæminu sínu fyrir norðan.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari.

Svo fór að Óli hafði þingmanninn undir. Bjarkey, sem er þingflokksformaður VG og því í einni áhrifamestu stöðu flokksins að ráðherrunum frátöldum, þarf að láta sér lynda 2. sætið, það sama og hún vermdi fyrir síðustu kosningar þegar Steingrímur leiddi flokkinn í kjördæminu, eins og hann hefur gert frá stofnun flokksins.

Tapaði oddvitakjöri og fellur á fléttureglu

Þótt það hafi ekki komið á óvart að umhverfisráðherra og varaformaður Vinstri grænna hafi borið sigur úr bítum í forvali flokksins í Kraganum í gær, hefur það alls ekki góð áhrif fyrir Ólaf Þór Gunnarsson, þingmann flokksins. Hann sóttist eftir fyrsta sætinu, en hann hefur verið oddviti flokksins í kjördæminu frá því Rósa Björk Brynjólfsdóttir sagði sig úr flokknum í fyrra.

Ólafur sem hafnaði í öðru sæti í forvalinu, eins og fyrir síðustu kosningar, mun ekki geta vermt sætið að þessu sinni þar sem reglur flokksins banna að tveir karlar séu boðnir fram í fyrsta og öðru sæti. Una Hildardóttir verður því væntanlega færð upp fyrir hann, eins og reglur flokksins gera ráð fyrir. Þar með eru líkur á að Ólafur haldi þingsæti sínu orðnar mjög hverfandi.

Ólafur Þór Gunnarsson tók slaginn við varaformann flokksins um oddvitasætið í Kraganum og hefur ekki séð annan kost vegna flokksreglna í þágu kvenna. Þrátt fyrir að hafa Ólafur hafi fengið annað sætið verður Una færð upp fyrir hann vegna reglnanna.
Samsett mynd.

Þingkonur Framsóknar tapa fyrir nýju fólki

Tvö kjördæmisfélög í Framsókn hafa lokið vali í efstu sæti á lista, í Norðausturkjördæmi og Norðvesturkjördæmi.

Þingkonurnar Halla Signý Kristjánsdóttir og Líneik Anna Sævarsdóttir gáfu báðar kost á sér til forystu, hvor í sínu kjördæmi, en höfðu hvorug erindi sem erfiði og töpuðu fyrir nýju fólki.

Í gær skákaði Ingibjörg Ísakssen bæjarfulltrúi á Akureyri, sitjandi þingmanni flokksins, Líneik Önnu Ævarsdóttur, sem þarf að láta sér lynda annað sætið.

Í Norðvesturkjördæmi, var oddvitastaðan laus eftir að Ámundur Einar Daðason tilkynnti að hann hygðist færa sig um set og freista þess að hífa flokkinn upp í Reykjavík. þar náði þingkonan Halla Signý Kristjánsdóttir ekki einu sinni að halda öðru sæti og féll niður í þriðja sæti. Kjördæmið leiðir Stefán Vagn Stefánsson héraðshöfðingi í Skagafirði. Það kom raunar fáum á óvart að Stefán legði Höllu og aðra sem í framboði voru. Hann er ekki aðeins vinsæll í sinni sveit heldur einnig sagður mjög hliðhollur helsta áhrifamanns Framsóknarflokksins síðustu ár, Þórólfs Gíslasonar Kaupfélagsstjóra Skagfirðinga á Sauðárkróki.

Í þriðja sætinu á þingkonan Halla Signý hins vegar litla von á þingsæti. Í stað hennar gæti formaður ungliðahreyfingar flokksins, Lilja Rann­veig Sig­ur­geirs­dótt­ir, hins vegar komist á þing.

Halla Signý Kristjánsdóttir þingkona Framsóknar og Ólafur Þór Gunnarsson þingmaður VG verða líklega bæði í þriðja sæti á listum sinna kjördæma. Ólíklegt er að það tryggi þeim þingsæti eftir kosningar.
Fréttablaðið/Anton Brink.

Uppstilling hjá Framsókn í Reykjavík

Í framsóknarflokknum er vali á lista aðeins lokið í tveimur kjördæmum. Enn eru kjördæmi allra ráðherra flokksins eftir og kjördæmi formanns fjárlaganefndar.

Í kraganum, þar sem Willum Þór Þórsson, virðist óskoraður foringi verður lokað prófkjör 8. maí.

Í júní verður lokað prófkjör í Suðurkjördæmi, vígi formannsins Sigurðar Inga, en uppstilling verður í Reykjavík þar sem ráðherrarnir Lilja Alfreðsdóttir og Ásmundur Einar Daðason gefa bæði kost á sér í sitt hvoru kjördæminu. Kjördæmisþing kýs um tillögur uppstillingarnefndar 19. maí nætkomandi.

Óvíst er hvers vegna Framsókn velur uppstillingu í Reykjavík en ekki lýðræðisleg val meðal flokksmanna. Í þeim flokkum sem hafa prófkjör í Reykjavík er ekki óalgengt að eitt prófkjör fari fram fyrir bæði kjördæmin og kann að vera að Lilja og Ásmundur vilji síður etja kappi.

Engin tíðindi hafa borist af Lárusi Sigurði Lárussyni lögmanni sem var oddviti í Reykjavíkurkjördæmi norður fyrir síðustu kosningar en þar ætlar ráðherrann Ásmundur Einar sér að leiða lista nú. Þó kæmi alls ekki á óvart ef hlutverkaskipti yrðu höfð á heimili Lárusar og eiginmaður hans Sævar Þór Jónsson léti til skarar skríða og gæfi kost á sér ásamt ráðherrum flokksins í Reykjavík.

Lilja Rafney með sterka stöðu

Hjá Vinstri grænum er eftir að ljúka vali á listum í Norðvesturkjördæmi og í kjördæmum Reykjavíkur.

Lilja Rafney Magnúsdóttir, oddviti flokksins fyrir vestan gefur áfram kost á sér til forystu. Bjarni Jónsson, vill líka leiða lista flokksins í kjördæminu en hann gaf einnig kost á sér gegn Lilju fyrir síðustu kosningar. Lilja hafði betur þá. Þótt hún hafi stjórnarsamstarf að verja nú, þykir hún standa vel að vígi í kjördæminu. Forvali í kjördæminu lýkur næsta sunnudag, 25. apríl.

Lilja Rafney Magnúsdottir, formaður atvinnuveganefndar er öflugur þingmaður síns kjördæmis. Hún hefur lengi látið sig atvinnumál fyrir vestan, raforkumál og annað sem hvílir á vestfirðingum. Hún þykir nokkuð öruggur leiðtogi síns flokks fyrir vestan.
Fréttablaðið/Ernir

Færi fyrir nýliða í Reykjavík

Líkt og hjá Framsókn munu stjörnur flokksins, forsætisráðherra og heilbrigðisráðherra, án efa leiða listana í Reykjavík, hvor í sínu kjördæmi.

Þær stöllur hafa unnið saman árum saman í stjórnmálum. Lengi sem formaður og þingflokksformaður og nú sem ráðherrar í ríkisstjórn.
Sigtryggur Ari.

Forval verður hjá VG í báðum kjördæmum Reykjavíkur 16. til 19. maí og rennur framboðsfrestur út eftir viku, næsta sunnudag.

Steinunn Þóra Árnadóttir hefur þegar lýst yfir framboði í sitt sæti, en hún er í öðru sæti í Reykjavík norður á eftir Katrínu Jakobsdóttur, formanni flokksins og forsætisráðherra. Fyrir síðustu kosningar var Andrés Ingi Jónsson í þriðja sæti á listanum og flaug á þing í krafti gífurlegra vinsælda formanns flokksins. Hann er nú í framboði fyrir Pírata. Þar gæti því verið opnun fyrir nýjan þingmann.

Hins vegar verður spennandi að fylgjast með málum í Reykjavík suður, kjördæmi Svandísar Svavarsdóttur. Kolbeinn Óttarsson Proppé er þingmaður þess kjördæmis en óvíst er hvort hann á afturkvæmt eftir flakk sitt um landið. Þau tvö; Svandís og Kolbeinn, náðu þingsæti fyrir flokkinn í síðustu kosningum.

Næstu menn á listum flokksins í Reykjavík hljóta nú að hugsa stíft. Þetta eru til dæmis Orri Páll Jóhannsson, aðstoðarmaður umhverfisráðherra og fyrrum þjóðgarðsvörður, Halla Gunnarsdóttir, Eydís Blöndal og Ugla Stefanía Jónsdóttir, allt þekktar konur í þjóðfélagsumræðunni.

Þó er ekki loku fyrir það skotið að Kolbeinn eigi enn innkomu auðið en skorað er nú á hann að láta reyna á sitt eigið kjördæmi. Er þess getið í áskorun nokkurra flokksmanna að hann hafi verið ósérhlífin í stuðningi við stefnu flokksins á kjörtimabilinu.

Steinunn Þóra með félögum í VG þegar allt lék í lyndi. Rósa Björk sagði skilið við VG vegna óánægju með samstarfið við Sjálfstæðisflokkinn. Kolbeinn hefur hins vegar varið ríkisstjórnina af kappi en það virðist ekki ætla að skila sér fyrir hann nú.
Fréttablaðið/Anton Brink.

Helmingur þingmanna flokkanna á tæpast afturkvæmt

Eins og rakið hefur verið er staðan í þingliði þessa tveggja stjórnarflokka er óneitanlega sérstök, nú þegar tveir mánuðir eru eftir af þessu síðasta þingi kjörtímabilsins og rúmir fimm mánuðir til kosninga.

Í VG hafa tveir þingmenn hafa yfirgefið þingflokkinn á kjörtímabilinu og eru í framboð fyrir aðra flokka; Rósa Björk Brynjólfsdóttir hjá Samfylkingunni og Andrés Ingi Jónsson í Pírötum. Hvorki formaður né varaformaður þingflokksins höfðu erindi sem erfiði sem erfiði í framboðum til forystu á listum. Hvorug eiga öruggt sæti á þingi og Kolbeinn reyndar alls ekki nema hann freisti þess að snúa aftur til Reykjavíkur og flokksmenn hans í borginni vilji hann aftur. Gengi Bjarkeyjar veltur á því hvort flokkurinn sér til sólar í norðausturkjördæmi nú þegar Steingrímur er sestur í helgan stein, en alls ekki er gefið að flokkurinn fái áfram tvo menn kjörna í kjördæminu þegar hans nýtur ekki lengur við.

Andrés Ingi Jónsson og Rósa Björk Brynjólfsdóttir greiddu atkvæði gegn málefnasamningi nýrrar ríkisstjórnar á flokksráðsfundi VG 29. nóvember 2017. Þau eru bæði gengin úr flokknum og eru í framboði fyrir aðra flokka.
Fréttablaðið/Anton Brink.

Þá á Ólafur Þór Gunnarsson litla von um þingsæti, taki Una Hildardóttir annað sætið í kraganum í krafti fléttureglna flokksns.

Eins og staðan er í dag, er ekki hægt að fullyrða um stöðu neins þingmanns í flokknum að ráðherrunum frátöldum, þótt telja verði líklegt að Lilja Rafney njóti sterkrar stöðu í sínu kjördæmi og sigri forvalið fyrir vestan. Nái Steinunn Þóra Árnadóttir aftur sama sæti í kjördæmi forsætisráðherra verður einnig að telja líklegt að hún haldi þingsæti sínu. En eins og hér hefur verið rakið er ekkert öruggt fyrir þingmenn VG í aðdraganda komandi kosninga.

Í Framsókn er staða þingliðsins einnig misjöfn en aðeins helmingur þingliðs flokksins er í nokkuð öruggri stöðu fyrir kosningarnar.

Þórunn Egilsdóttir, oddviti Framsóknar fyrir norðan er hætt á þingi vegna veikinda. Líneik Önnu, hins þingmanns kjördæmisins, hefur verið hafnað sem forystumanni í kjördæminu og þarf að sætta sig við sama sæti og hún vermdi fyrir síðustu kosningar. Þingmennska hennar vegur því salt og fer eftir því hvort flokkurinn bætir við sig eða tapar atkvæðum í kjördæminu í kosningunum. Halla Signý Kristjánsdóttir, á sem fyrr segir, litla von um þingsæti en hún er í þriðja sæti í sínu kjördæmi, þar sem nýr maður leiðir lista eftir að ráðherrann flutti á mölina.

Ekki er við öðru að búast en Silja Dögg Gunnarsdóttir ætli sér áframhaldandi þingmennsku en líkt og í tilviki Steinunnar Þóru Árnadóttur, er hún þingmaður sama kjördæmis og formaður flokks síns. Fyrir síðustu kosninar var hún í 2. sæti á lista í kjördæmi formannsins, Sigurðar Inga. Það á enn eftir að koma í ljós í tilvikum þeirra beggja, Silju Daggar og Steinunnar Þóru, hvort þær halda sætum sínum.

Uppsafnaður áhugi eða óánægja?

Hvað veldur því að þingmönnum úr röðum meirihlutans er hafnað í jafn miklum mæli og raun ber vitni er ekki augljóst.

Aðdragandi tveggja síðustu kosninga var ólíkur því sem flokksfólk á að venjast og því mögulega uppsöfnuð eftirspurn eftir pólitískum frama. Frambærilegt fólk hefur því beðið átekta lengi og vera kann að þess tími sé einfaldlega kominn.

Það hefur hins vegar vakið athygli margra hve mikið af fólki i áhrifastöðum hjá flokkunum geldur nú afhroð. Má þar nefna bæði formann og varaformann þingflokks VG, en báðir hafa verið ötullir talsmenn sinna ráðherra og ríkisstjórnarinnar.

Þá komust hvorki upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar sem gaf kost á sér í forvali VG né ritari Framsóknarflokksins sem bauð sig fram í 2. sæti í norðausturkjördæmi, á blað.

Athugasemdir