Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, gerði faraldurinn og sóttvarnaraðgerðir að umtalsefni sínu á Alþingi í dag. Hann sagði umræðuna hafa verið einsleita og yfirvöld einungis horfa til sóttvarnarsjónarmiða. Hann sagðist síðan taka undir þær gagnrýnisraddir sem segja ríkisstjórnin hafa brugðistvið taka tillit til afleiðinga sóttvarnaraðgerða.
„Við verðum að þora að taka umræðuna frá mörgum sjónarhornum sem mér finnst hafa, eftir tveggja ára veru að verða í faraldrinum, einskorðast svolítið bara út frá sóttvarnarsjónarmiðunum,“ sagði Vilhjálmur.
„Ég get tekið undir það að ríkisstjórnin hefur að mörgu leyti bara brugðist í þessu um það að hafa umræðuna víðar um afleiðingarnar af takmörkunum og hvernig á að bregðast við,“ sagði Vilhjálmur enn fremur og bætti við að það yrði að ræða eftirköstin af aðgerðunum.
„Það er töluvert af fólki sem er þá kannski frekar á lágum launum sem hefur fallið úr starfi og þarf virkni stuðning komast aftur til starfa en hafa líka verið kannski bara 70 til 80% launum síðustu tvö árin og hafði ekki miklar tekjur fyrir.“

Starfsfólk betur nýtt á spítalanum en í sýnatöku
Vilhjálmur spurði í kjölfarið um hvaða félagslegu og andlegu áhrif þetta hefur og hvernig ætlum við sem samfélag að takast á við þetta.
Hann benti einnig á að læknar séu nú byrjaðir að spyrja hvort það væri ekki betra að nýta starfsfólk heilbrigðiskerfisins í að þjónustu heilbrigðiskerfið fremur en að vera taka sýni allan daginn. Þá þyrfti jafnframt að skoða hvort það væri ekki betra að nýta fjármunina sem fara í sýnatöku í að byggja upp heilbrigðiskerfið.
„Við þurfum að þora að taka þessa umræðu. Fjölmiðlar, alþingismenn og samfélagið allt,“ sagði Vilhjálmur að lokum.
Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar, tók undir með Vilhjálmi og benti á að Viðreisn hefur kallað eftir því lengi að þingið fengi meiri aðkomu að þeim ráðstöfunum sem gripið er í.
„Við fórum fram á það sem heilbrigðisráðherra varð við á sínum tíma að hér yrði gefinn á tveggja vikna fresti skýrsla svona almenns eðlis um stöðu sóttvarna mála, en við höfum tekið þetta aðeins lengra með því að senda forseta Alþingis bréf þar sem við óskum eftir því að heilbrigðisráðherra og fjármálaráðherra og eftir atvikum aðrir ráðherrar gefi Alþingi skýrslu samdægurs eða eins fljótt og auðið er í kjölfar þessa tiltekna sóttvarnaraðgerðir eru kynntar eða framlengdar af hálfu stjórnvalda,“ sagði Vilhjálmur.

„Afbragðs ræða“ hjá Vilhjálmi
Tilgangur skýrlsugjafarinnar væri þá að fá upplýsingar um forsendur að baki ákvörðunum um fyrirhugaðan árangur og áhrif á samfélagið.
„Það er ekki bara þingflokkur Viðreisnar sem hefur verið kallað eftir þessu hér í þinginu. Á undanförnum mánuðum hafa fleiri þingmenn gert og það var auðvitað eftirtektarvert að heyra afbragðs ræðu háttvirts þingmanns Vilhjálms Árnasonar hér áðan þar sem hann benti mjög réttilega á það að ríkisstjórnin hafi klikkað talsvert mikið þegar kemur að því að veita þinginu tækifæri til þess að sýna framkvæmdarvaldinu aðhald,“ sagði Sigmar