Frumvarp Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra um breytingar á stjórnarskrá er á dagskrá fundar stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar klukkan níu í dag. Samkvæmt heimildum blaðsins liggur engin sátt fyrir um hvort eða hvernig málið verður afgreitt úr nefnd.

Rætt hefur verið um möguleika á að hluti frumvarpsins verði tekinn til umræðu með von um samþykkt einhverra ákvæða, til dæmis ákvæðis um íslenska tungu, eða einhverrar breytingatillögu sem komið hefur fram um málið. Til dæmis gæti náðst sátt um tillögu Loga Einarssonar um breytingaákvæði stjórnarskrárinnar.

Náist sátt um frumvarpið eða hluta þess getur lokaafgreiðsla þess þó ekki farið fram nema á sérstökum þingstubbi í haust þar sem rjúfa þarf þing og boða til kosninga strax og breytingar á stjórnarskrá hafi verið samþykktar.