Sigurður Hreinn Sigurðsson, sem situr í stjórn Stjórnarskrárfélagsins, segir í kæru til undirbúningskjörnefndar Alþingis að mikilvægt sé að umræða verði um stöðu Birgis Þórarinssonar þingmanns eftir að Birgir fór úr Miðflokknum yfir í Sjálfstæðisflokkinn.

Fréttablaðið hefur greint frá því að Inga Sæland, þingmaður Flokks fólksins, telji stöðu Birgis sem þingmanns óljósa þar sem Birgir hafi ekki verið kominn með samþykkt kjörbréf frá Alþingi þegar hann flakkaði á milli flokkanna. Inga situr í undirbúningskjörbréfanefnd. Í kæru Sigurðar til nefndarinnar segir að það þurfi að taka afstöðu til þess hvort nýkjörnum þingmönnum sé stætt á að skipta um flokk að loknum kosningum, áður en þingsetning fer fram.

Í kærunni kemur fram að um sjálfstæði alþingismanna samanber 48. grein stjórnskipunarlaga nr. 33/1944 í gildandi stjórnarskrá sem og í tillögum stjórnlagaráðs segi að alþingismenn séu eingöngu bundnir við sannfæringu sína en ekki við neinar reglur frá kjósendum sínum eða fyrirmæli frá öðrum. Mál Birgis er hins vegar fordæmalaust, að sögn Ingu Sæland, þar sem Birgir var ekki kominn með gilt kjörbréf þegar hann flutti sig.

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins.

„Það stenst vart siðferðislegar kröfur að villa um fyrir kjósendum með því að bjóða sig fram fyrir tiltekinn stjórnmálaflokk en vera í raun í framboði fyrir annan ótiltekinn flokk,“ segir Sigurður í kærunni.

„Kjörbréfanefnd þyrfti mögulega að taka afstöðu til þess hvort að 48. grein gildandi stjórnarskrár eigi við um nýkjörna þingmenn sem Alþingi hefur enn ekki staðfest kjörbréf fyrir,“ bætir hann við.

Hann segir að gildi ákvæðisins afmarkist ef til vill aðeins við þann tíma sem þingmönnum sé heimilt að taka þátt í þingstörfum og Alþingi sé að störfum.

„Það breytir þó ekki því að tilgangur stjórnarskrárákvæðisins er klárlega ekki sá að standa vörð um óheiðarleika frambjóðenda í alþingiskosningum,“ segir Sigurður.

Birgir Þórarinsson svaraði ekki skilaboðum þegar leitað var sjónarmiða hans vegna kærunnar.