Katrín Oddsdóttir, lögfræðingur og formaður Stjórnarskrárfélagsins og Sigurður Guðni Guðjónsson, hæstaréttarlögmaður ræddu sjórnarskrármálið í Silfrinuí dag.

Sigurður Guðni sagði að stjórnarskráin ætti að vera einfalt plagg um það hvernig samfélaginu skuli stýrt, það þurfi að tryggja borgaraleg- og félagsleg réttindi. Þá sagði hann að þegar skipta eigi út stjórnarskrá þurfi að spyrja hvort raunveruleg þörf sé á því og hvort fyrri stjórnarskrá hefði brugðist. Hann taldi að svo væri ekki.

Sigurður benti á það að í nýju stjórnarskránni væri búið að bæta inn fjölda ákvæða sem engin þörf væri að setja inn. T.d. 36. grein um dýravernd sem tryggð væri í almennum lögum. Þá væri einnig mikil áhersla lögð á það að fyrirbyggja ofbeldi, þá væri aðallega verið að hugsa um heimilisofbeldi og kynferðisofbeldi.

„Ég held það sé ekki gott að taka á því sérstaklega í stjórnarskrá. Við erum með almenn hegningarlög, það er miklu nær að skýra hegningarlagaákvæðin og gera mönnum grein fyrir því að það sætir refsingu að beita aðra ofbeldi."

Ekki voru þau sammála um mikilvægu nýju stjórnarskrárinnar.
Fréttablaðið/Skjáskot

Þá bendir hann á að það sé stundum erfitt að gera sér grein fyrir hvaða skjöl og reglur er vísað til í nýju stjórnarskránni. „Þetta eru allt falleg og góð markmið en ég er ekki viss um að stjórnarskráin tryggi þetta betur en hinn almenna löggjöf sem hægt er að breyta mun hraðar eftir aðstæðum hverju sinni," bætti Sigurður við. Hann telur mikilvægt að fara varlega þegar breyta eigi grundvallarreglum samfélagsins.

Þýðir ekki að fara gegn þjóðaratkvæðagreiðslu

Katrín var ekki sammála honum hún segir að nýja stjórnarskráin sé einfaldlega á mannamáli og kveði frekar á um þau lög sem nú þegar eru í gildi.

„Enginn getur fundið upp stjórnarskrá sem öllum líkar vel. En hér erum við að tala um stóra og mikilvæga málamiðlun, það náðist sátt um akkúrat þetta. Það er sérstaklega kveðið á um þessi ákvæði sem Sigurður nefnir vegna þess að þau eru raunveruleg vandamál í samfélaginu okkar. Við erum að reyna að búa til okkar eigin íslensku stjórnarskrá. Ég held að við getum mætt ólíkum sjónarmiðum, það gengur allavega ekki að fara aðra leið en sú sem þjóðaratkvæðagreiðsla kveður á um," segir Katrín.

Katrin bendir á það að meirihlutinn vill stjórnarskrá. Stjórnarskrárfélagið hafi náð að safna hátt í 40 þúsund staðfestum undirskriftum og í fjórum skoðanakönnunum sem gerðar hafa síðustu ár hefur meirihluti þátttakenda alltaf verið hlyntur nýrri stjórnarskrá. Í nýjustu könnuninni sögðust t.d. 60% landsmanna vilja nýja stjórnarskrá.

Stjórnarskrárfélagið hefur nú safnað tæplega 40 þúsund undirskriftum undir þá kröfu að drög að nýrri stjórnarskrá sem voru samþykkt í þjóðaratkvæðisgreiðslu árið 2012 verði að nýrri stjórnarskrá. Undirskriftasöfnun líkur á þann 20. október næstkomandi en hægt er að skrifa undir hér.