„Staðan hjá okkur er þannig að textavinnsla við gerð stjórnarsáttmála er mjög langt komin og við stefnum að því að hefja samtal um verkaskiptingu síðar í þessari viku,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra um stöðuna í stjórnarmyndunarviðræðum.
Stjórnarmyndunarviðræður hafa sjaldan tekið jafn langan tíma og nú en það helgast þó af öðru en ósamstöðu samningafólks. Beðið er eftir því að undirbúningsnefnd kjörbréfanefndar ljúki störfum og þing verði kallað saman til að kveða upp úr um gildi kjörbréfa.
Fréttablaðið hefur áður haft eftir forsætisráðherra að ríkisstjórnir séu myndaðar að loknum kosningum og á meðan ekki liggi fyrir hvort kjósa þurfi upp í einu kjördæmi, verði ný stjórn ekki mynduð.
Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins verður miðað við það að stjórnarflokkarnir þrír haldi sínum ráðherrafjölda í nýrri stjórn. Hins vegar má búast við að ráðherrum í stjórninni fjölgi um einn og talið er öruggt að Framsóknarflokkurinn muni njóta þess.