„Staðan hjá okkur er þannig að texta­vinnsla við gerð stjórnar­sátt­mála er mjög langt komin og við stefnum að því að hefja sam­tal um verka­skiptingu síðar í þessari viku,“ segir Katrín Jakobs­dóttir for­sætis­ráð­herra um stöðuna í stjórnar­myndunar­við­ræðum.

Stjórnar­myndunar­við­ræður hafa sjaldan tekið jafn langan tíma og nú en það helgast þó af öðru en ó­sam­stöðu samninga­fólks. Beðið er eftir því að undir­búnings­nefnd kjör­bréfa­nefndar ljúki störfum og þing verði kallað saman til að kveða upp úr um gildi kjör­bréfa.

Frétta­blaðið hefur áður haft eftir for­sætis­ráð­herra að ríkis­stjórnir séu myndaðar að loknum kosningum og á meðan ekki liggi fyrir hvort kjósa þurfi upp í einu kjör­dæmi, verði ný stjórn ekki mynduð.

Sam­kvæmt heimildum Frétta­blaðsins verður miðað við það að stjórnar­flokkarnir þrír haldi sínum ráð­herra­fjölda í nýrri stjórn. Hins vegar má búast við að ráð­herrum í stjórninni fjölgi um einn og talið er öruggt að Fram­sóknar­flokkurinn muni njóta þess.