Þingeyjarsveit er nú með breytingar á heildarendurskoðun aðalskipulags til skoðunar á meðan sveitarfélagið tekur sér tíma til að ákvarða næstu skref sem gætu ráðið úrslitum um hvort Einbúavirkjun í Skjálfandafljóti verður að veruleika.

Samtök um náttúruvernd á Norðurlandi, SUNN, eru mjög andvíg virkjuninni. Samtökin telja að stjórnarmaður í RARIK, Kristján L. Möller, hafi brotið starfsreglur stjórnarinnar með talsmennsku fyrir virkjunina. Kristján er fyrrverandi þingmaður og ráðherra.

„Mér finnst óeðlilegt að framkvæmdaaðili skuli taka með sér mann úr stjórn RARIK til að tala fyrir framkvæmdinni í sveitarstjórn Þingeyjarsveitar,“ segir Harpa Barkardóttir, formaður SUNN.

Áformuð staðsetning virkjunarinnar.

Þar vísar Harpa til fundar sem hafi átt sér stað milli framkvæmdaaðila og sveitarstjórnar. Kristján hafi verið viðstaddur fundinn. Þá hafi hann verið talsmaður Einbúavirkjunar áður en hann settist í stjórn RARIK.

Í annarri grein starfsreglna RARIK segir á heimasíðu: „Stjórn RARIK ohf. skal vera sjálfstæð gagnvart öðrum fyrirtækjum sem stunda vinnslu, dreifingu eða sölu raforku.“ Harpa telur að þessi regla hafi verið brotin með fyrrnefndu inngripi Kristjáns. Engin fundargerð sé til um þennan fund.

Fréttablaðið leitaði viðbragða Kristjáns L. Möller en hann situr fyrir Samfylkinguna í stjórn RARIK. Kristján sagðist ekkert vilja tjá sig.

Í frummatsskýrslu um mat á umhverfisáhrifum sem Verkís vann um Einbúavirkjun segir meðal annars: „Almennt eru heildaráhrif Einbúavirkjunar (framkvæmda- og rekstrartími) metin óveruleg til nokkuð neikvæð, en samfélagsleg áhrif metin nokkuð til talsvert jákvæð.“