Abiy Ahmed, forsætisráðherra Eþíópíu, greinir frá því á Twitter að stjórnarher Eþíópíu hafi náð höfuðborg Tigray-héraðs, Mekelle, yfir á sitt band en herinn réðst inn í borgina fyrr í dag. Mikil átök hafa verið í héraðinu síðustu vikur en CNN hefur það eftir heimildarmönnum að ráðist hafi verið á borgina fyrr í dag.

Að sögn Ahmed er nú helsta verkefnið sem Eþíópía stendur frammi fyrir að byggja upp héraðið. Fregnir hafa borist af því að stjórnvöld hafi framið stríðsglæpi í héraðinu en að sögn forsvarsmanna Frelsishreyfingarinnar (TPLF) var Ahmed sagður bera ábyrgð á árásum stjórnarhersins.

Ásakanir gengið á víxl

Átökin í héraðinu hófust eftir að stjórnvald í Tigray stóð fyrir kosningum í héraðinu síðastliðinn september gegn vilja landsstjórnarinnar en ríkisstjórnin sagði kosningarnar brjóta í bága við stjórnarskrá landsins. Ásakanir hafa frá þeim tíma gengið á víxl milli deiluaðila.

Samkvæmt frétt CNN eru stofnanir og flugvöllurinn í héraðinu nú undir stjórn hersins en hafði áður verið undir stjórn TPLF. Viðræður stjórnvalda Eþíópíu við leiðtoga TPLF báru ekki árangur og sagði Ahmed fyrr í vikunni að þau væru nú á lokametrum hernaðaraðgerða i héraðinu.

Erfitt hefur reynst að flytja fréttir af stöðu mála í héraðinu og höfðu leiðtogar innan alþjóðasamfélagsins lýst yfir áhyggjum af mannréttindamálum þar sem fregnir hafa borist af miklu ofbeldi í héraðinu. Talið er að hundruð manna hafi látist í átökunum og hafa fleiri en 40 þúsund þurft að flýja yfir til Súdan.