Nokkrir á­hafnar­með­limir Herjólfs, sem eru nú í verk­falli, voru mættir niður á bryggju í Vest­manna­eyjum í dag þegar gamli Herjólfur átti að sigla af stað. Stjórnar­for­maður Herjólfs ohf., Arnar Péturs­son, sást þar ræða við verk­falls­mennina.

Bergur Þor­kels­son, for­maður Sjó­manna­fé­lags Ís­lands, stað­festir að hans fé­lags­menn hafi mætt á bryggjuna í dag. „Ég var ekki sjálfur þarna en já, ég heyrði frá þeim að ein­hverjir hefðu mætt.“ Að­spurður hvort það hafi verið í þeim til­gangi að mót­mæla fyrir­ætluðum siglingum gamla Herjólfs segist hann gera fast­lega ráð fyrir því.

Eins og greint var frá í dag á­kvað fram­kvæmda­stjórn Herjólfs að sigla gamla Herjólfi fjórar ferðir til og frá Eyjum í dag þrátt fyrir verk­fall á­hafnar­með­lima sem eru í Sjó­manna­fé­laginu. Sjó­manna­fé­lag Ís­lands telur að um skýrt verk­falls­brot sé að ræða hjá fé­laginu.

Ekki er vitað hvað Arnar sagði við fé­lags­mennina en hann talaði við þá um nokkra stund á bryggjunni. Hvorki hefur náðst í hann né fram­kvæmda­stjóra fé­lagsins Guð­bjart Ellert Jóns­son síðustu klukku­tímana.