„Það er sorglegt til þess að hugsa að staðan sé svona, þetta er mikill missir fyrir samfélagið,“ segir Halla Björk Reynisdóttir, formaður bæjarráðs Akureyrar, um að sjónvarpsstöðin N4 sé komin í þrot.

Halla Björk segir að stjórnvöld verði að bregðast við ef einkareknir fjölmiðlar, staðarmiðlar ekki síður en landsmiðlar, eigi að geta þrifist hér á landi. Það kynni að bæta rekstrarstöðu þeirra töluvert ef Ríkisútvarpinu yrði kippt af auglýsingamarkaði en hennar skoðun sé að þá yrði að bæta Ríkisútvarpinu upp tekjutapið.

„En þetta gengur ekki svona.“

Samningur var gerður árið 2010 um að sýna bæjarstjórnarfundi á Akureyri á N4. Framtakið var hugsað sem styrkur. Honum var rift fyrir tveimur árum á grunni jafnræðisreglu. Óverjandi þótti að styrkja einn fjölmiðil umfram annan að sögn Höllu Bjarkar.

Mikið umrót varð á Alþingi fyrir jól vegna óskar um styrk sem barst fjárlaganefnd frá sjónvarpsstöðinni. Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, segir að N4 hafi ekki sérstaklega leitað til hennar ráðuneytis vegna rekstrarvandans. Fundur hafi farið fram á þessu ári milli ráðuneytisins og stjórnarformanns N4, en efni fundarins hafi fyrst og fremst verið kynning á efnistökum sjónvarpsstöðvarinnar.

„N4 leitaði ekki til okkar eftir beinum fjárhagsstuðningi,“ segir Lilja.

Hún segir eftirsjá að fjölmiðlinum.

„N4 hefur verið mjög öflug sjónvarpsstöð og hefur búið til góða sjónvarpsþætti.“