Björn Leví Gunnars­son, þing­maður Pírata og með­limur í um­hverfis- og sam­göngu­nefnd, segir að ríkis­stjórnar­flokkarnir hafi tekið sér stöðu með Mið­flokknum þegar at­kvæða­greiðsla fór fram um for­mennsku nefndarinnar í morgun. 

Til­laga Við­reisnar, Pírata og Sam­fylkingarinnar um að Hanna Katrín Frið­riks­son tæki við for­mennsku nefndarinnar var felld af meiri­hluta nefndarinnar í morgun. Berg­þór Óla­son mun víkja sem for­maður en nefndin hefur verið ó­starf­hæf eftir endur­komu hans. Berg­þór mun þó á­fram sitja í nefndinni. 

Þrjár tillögur minnihlutans felldar

Björn Leví segir í sam­tali við Frétta­blaðið að eftir að til­laga um að Hanna Katrín tæki við for­mennsku hafi verið felld hafi þau lagt fram breytingar­til­lögu um að hún yrði 1. vara­for­maður nefndarinnar. Sú til­laga var felld og einnig til­laga um að hún yrði 2. vara­for­maður. 

Þess í stað greiddi meiri­hluti nefndarinnar at­kvæði með að Jón Gunnars­son tæki við for­mennsku, Ari Trausti Guð­munds­son sem 1. vara­for­maður og Líneik Anna Sæ­vars­dóttir sem 2. vara­for­maður. Öll eru úr stjórnar­flokkunum þremur, Sjálf­stæðis­flokki, Vinstri grænum og Fram­sókn. 

Á fundinum hafi komið fram að staðan verði endur­skoðuð í maí en sam­kvæmt sam­komu­lagi minni­hlutans við ríkis­stjórnina á minni­hlutinn að fara með for­mennsku í þremur fasta­nefndum þingsins. Björn Leví segir að hlut­falls­lega, og þing­sköpum sam­kvæmt, ættu nefndirnar að vera fjórar en samið hafi verið um þrjár. Því sé dapurt að þær séu nú bara tvær, í það minnsta tíma­bundið. 

Reynt að róa málið niður

Hann segir stjórnar­flokkana hafa tekið af­stöðu með Mið­flokknum en minni­hlutinn er ekki par sáttur með þróun mála og segir Björn Leví að verið sé að reyna að róa málið niður. Á­kvörðun meiri­hluta nefndarinnar sé ekki í takt við um­mæli stjórnar­þing­manna undan­farinna daga. 

Orð­ræðan hefur verið á þann veg að þeir hygðust fela minni­hlutanum, sem fer með for­mennsku nefndarinnar, að leysa úr málinu. Það hafi þeir hins vegar ekki gert núna. „Þeir skiptu sér að þessu. Það gerðu þeir at­kvæðum sínum,“ segir Björn Leví.

Í til­kynningu stjórnarflokkanna sem send var á fjöl­miðla segir meðal annars eftir­farandi: 

Það er öllum ljóst að um tíma­bundna lausn sé að ræða til að koma störfum nefndarinnar í rétt horf. Ef og þegar að­stæður breytast eru stjórnar­flokkarnir reiðu­búnir að endur­skoða þessa stöðu og telja raunar mikil­vægt að slíkt endur­mat eigi sér stað fyrir þing­lok. Þar sem hér er um tíma­bundna ráð­stöfun að ræða líta stjórnar­flokkarnir ekki svo á að taka þurfi upp allt sam­komu­lag stjórnar og stjórnar­and­stöðu um for­mennsku í fasta­nefndum Al­þingis að svo stöddu.