Ríkisstjórnarflokkarnir þrír bæta allir við sig fylgi í könnun sem Zenter rannsóknir gerðu fyrir Fréttablaðið og greint var frá fyrr í vikunni. Samanlagt fylgi þeirra er nú tæp 43 prósent. Það hefur ekki mælst meira í könnunum Zenter frá því í júní í fyrra.

Flokkarnir þrír mælast þó samtals með rúmlega tíu prósentustigum minna fylgi en þeir fengu í kosningunum haustið 2017.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið stærsti flokkurinn í öllum könnunum Zenter frá því að sú fyrsta var gerð fyrir Fréttablaðið í byrjun desember 2018. Í könnuninni nú mælist flokkurinn með 22,4 prósent og hefur ekki mælst stærri síðan í lok júní í fyrra.

Vinstri græn mælast nú með 11,8 prósent sem er það mesta síðan um miðjan október á síðasta ári. Enn á flokkurinn þó langt í land með að ná kjörfylgi sínu sem var 16,9 prósent.

Framsóknarflokkurinn bætir 0,2 prósentustigum við sig og er nú með 8,4 prósent. Flokkurinn hefur ekki fengið meira fylgi síðan í könnun í byrjun mars í fyrra.

Samfylkingin næst stærst allt frá lokum júlí

Samfylkingin virðist vera að festa sig vel í sessi sem stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn og næststærsti flokkur landsins. Þeirri stöðu hefur Samfylkingin haldið frá lokum júlí í fyrra. Flokkurinn missir að vísu rúm tvö prósentustig frá síðustu könnun en hefur mælst yfir kjörfylgi allt tímabilið sem kannanirnar ná yfir.

Píratar mælast nú með 11,9 prósent og hafa líkt og Samfylkingin mælst yfir kjörfylgi allt umrætt tímabil. Flokkurinn fékk 9,2 prósent í kosningunum en fór hæst upp í rúm 15 prósent í könnun í lok júní í fyrra.

Töluverðar sveiflur hafa verið á fylgi Miðflokksins í könnunum Zenter fyrir Fréttablaðið. Flokkurinn fékk 10,9 prósent í kosningunum en mælist nú með 8,6 prósent. Í kjölfar Klaustursmálsins féll fylgi flokksins niður í 4,3 prósent í desember 2018. Í lok júlí í fyrra var það hins vegar komið upp í 13,4 prósent.

Viðreisn er þriðji stjórnarandstöðuflokkurinn sem hefur mælst yfir kjörfylgi í öllum könnununum. Flokkurinn fékk 6,7 prósent í kosningunum en mælist nú með 9,8 prósent. Hæst fór fylgið í september í fyrra þegar það var rúm 12 prósent.

Flokkur fólksins hefur ekki náð kjörfylgi sínu í neinni af könnununum en flokkurinn fór nálægt því í mars síðastliðnum. Í kosningunum fékk flokkurinn 6,9 prósent en mælist með 4,4 prósent nú. Flokkurinn hefur mælst undir fimm prósenta markinu allt frá júní í fyrra ef könnunin í mars er undanskilin.

Sósíalistaflokkurinn hefur sótt í sig veðrið í könnunum á þessu ári. Í janúar mældist flokkurinn með 5,2 prósent en hefur verið með 4,5 prósent í síðustu tveimur könnunum.

Framsókn með 16 prósent á landsbyggðinni

Ef rýnt er í niðurstöður síðustu könnunar Zenter rannsókna kemur ýmislegt fróðlegt í ljós. Misjafnt er hvernig fylgi flokkanna skiptist eftir búsetu fólks. Þannig styðja 16 prósent íbúa landsbyggðarinnar Framsóknarflokkinn, en aðeins rúm fjögur prósent íbúa höfuðborgarsvæðisins.

Miðflokkurinn sækir einnig fylgi sitt frekar á landsbyggðina þar sem flokkurinn nýtur tæplega 12 prósenta stuðnings. Á höfuðborgarsvæðinu styðja rúm sjö prósent flokkinn.

Dæmið snýst við hjá Viðreisn. Flokkurinn er með tæplega 13 prósenta stuðning á höfuðborgarsvæðinu en rúmlega fjögur prósent á landsbyggðinni.

Samfylkingin er einnig mun sterkari á höfuðborgarsvæðinu þar sem flokkurinn mælist með rúm 17 prósent, á móti tæpum 11 prósentum á landsbyggðinni.

Munurinn er minni hjá öðrum flokkum en þó eru Sjálfstæðisflokkur, Vinstri græn og Píratar heldur sterkari á höfuðborgarsvæðinu en landsbyggðinni.

Sem fyrr skera Vinstri græn og Miðflokkurinn sig úr, þegar horft er á stuðning eftir kyni. Þannig styðja rúm 19 prósent kvenna Vinstri græn en aðeins rúm sex prósent karla. Miðflokkurinn nýtur stuðnings tæplega 11 prósenta karla en tæplega sex prósenta kvenna.

Tekjuhærri styðja Sjálfstæðisflokk og Viðreisn

Ef horft er á tekjur einstaklinga kemur í ljós að stuðningur við Sjálfstæðisflokkinn fer vaxandi með auknum tekjum. Þannig styðja 35 prósent þeirra sem hafa tekjur yfir 800 þúsund á mánuði flokkinn. Stuðningurinn er hins vegar 15 prósent hjá þeim sem eru með minna en 400 þúsund.

Mynstrið er svipað hjá Viðreisn þar sem stuðningurinn er 17 prósent í hæsta tekjuhópnum en sex prósent í þeim lægsta. Píratar sækja sinn stuðning aftur á móti frekar í tekjulægri hópana. Í lægsta tekjuhópnum styðja 17 prósent Pírata en um níu prósent í þeim hæsta.

Stuðningur við Sósíalistaflokkinn og Flokk fólksins er áberandi mestur í lægsta tekjuhópnum, en Miðflokkurinn sækir frekar fylgi sitt til tekjuhærri hópa. Vinstri græn og Samfylkingin njóta mests stuðnings hjá þeim sem eru með 600-799 þúsund á mánuði en minna í öðrum hópum.