Grétar Þór Eyþórsson stjórnmálafræðingur segir ljóst eftir kosninganóttina að Framsókn hafi átt mikið inni hjá óákveðnu fylgi. Sömuleiðis hafi kosningamaskína Sjálfstæðisflokksins sannað gildi sitt eins og áður.
Sjálfstæðisflokkurinn er með sama þingmannafjölda miðað við nýjustu tölur en Framsókn bætir við sig fimm þingmönnum. VG fer ekki eins illa út úr þessu eins og leit út fyrir að sögn Grétars. Flokkur fólksins er búinn að vinna gríðarlegan kosningasigur að mati hans
„Þetta er mjög áhugavert að mörgu leyti,“ segir Grétar um tölurnar í nótt en hann telur ákveðinn flutning kjósenda átt sér stað frá Sósíalistum yfir til Flokks fólksins.
„Svo hefur verið rosaleg auglýsingaherferð frá þingflokkunum seinustu vikuna og það eru eins og Sósíalistar hafi orðið undir í því, gátu lítið sem ekkert auglýst eins og heyrðist, áttu ekki peningana. Styrkir til flokka á þingi skipta máli, það hefur sýnt sig,“ segir hann.

„Ég veit ekki hversu raunhæft það er að verði tveggja flokka stjórn en þriggja greinilega alveg í spilunum, eins og þetta stendur núna.“
Samfylkingin mælist ekki jafn vel og í könnunum og Sósíalistaflokkurinn virðist ekki ætla að fá þingmann inn þó að kannanir spáðu fyrir um 3 til 4 menn. Sömuleiðis leit staðan ekki vel út fyrir Flokk fólksins samkvæmt könnunum en flokkurinn er að vinna stórsigur með helmingi meira fylgi en spáð var fyrir um. Flokkur fólksin er orðinn stærri en Viðreisn, stærri en Píratar og hefur jafn marga þingmenn og Samfylkingin eins og sakir standa í atkvæðatalningunni.
„Kannanir mæla kannski bara punktmælingu á því sem er að gerast akkúrat þá og voru ekki að ná utan um seinustu tvo dagana og það var greinilega mikil hreyfing þá. Ég verð að segja að það kemur mér á óvart hvað Flokkur fólksins hefur náð að brjóta sér leið og styrkja sig enn frekar í sessi. Það var búið að spá honum lengi vel úti. Mér finnst það vera tíðindi þessara kosninga.“
Ríkisstjórnarflokkarnir eru með pálmann í höndunum ef þeir vilja halda áfram að mati Grétars. Telur hann þó vafasamt að hafa eins manns meirihluta í stjórn.
„Ég veit ekki hversu raunhæft það er að verði tveggja flokka stjórn en þriggja greinilega alveg í spilunum, eins og þetta stendur núna.“