Formenn stjórnarflokkanna þriggja, Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri Grænna, neituðu því í leiðtogaumræðum á RÚV í kvöld að þeir hefðu myndað „óformlegt kosningabandalagi“ eins og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, sagði að væri ekkert launungarmál.

Formenn ríkisstjórnarflokkanna þriggja voru þó sammála um að það væri eðlilegast ef þeir reyndu að ná saman á nýjan leik væri það möguleiki eftir kosningar.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði engan fót fyrir fullyrðingum Þorgerðar Katrínar. „Það væri samt mjög einkennilegt ef ríkisstjórnin héldi veli að við settumst ekki niður og létum á það reyna hvort við náum saman,“ sagði hann engu að síður.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, léði máls á því að aldrei hefði þriggja flokka ríkisstjórn lokið kjörtímabili. Það væri eðlilegast ef hún héldi meirihluta í kosningunum að þau ræddu saman en flokkur hennar væri óbundinn í aðdraganda kosninga.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar, sagði flokksfólk sitt ánægt með stjórnarsamstarfið. Það hefði komið fram í leiðtogaumræðunum. Hann sagði eins og þau Katrín og Bjarni að eðlilegast væri ef þau ræddu saman að loknum kosningum ef flokkar þeirra hefðu meirihluta. Flokkurinn væri engu að síður óbundinn.