Samanlagt fylgi ríkisstjórnarflokkanna er 40,8 prósent samkvæmt nýrri könnun sem Zenter rannsóknir unnu fyrir Fréttablaðið í lok síðustu viku. Fylgi stjórnarflokkanna hefur ekki verið svo lítið síðan í janúar á þessu ári, þegar það mældist rúm 35 prósent.

Framsókn hefur náð Miðflokknum í fylgi

Það er þó eingöngu fylgi Vinstri grænna sem dregur stjórnarflokkana niður. Flokkurinn, sem hefur yfirleitt mælst með 12 til 13 prósenta fylgi á kjörtímabilinu, mælist nú undir tíu prósentum í annað sinn á þessu kjörtímabili. Fylgi flokksins stendur nú í 9,7 prósentum.

Sjálfstæðisflokkurinn heldur sama fylgi og í síðustu könnun eða rúmum 23 prósentum. Fylgi Framsóknarflokksins er 7,9 prósent og kemst hann upp að hlið Miðflokksins í fyrsta sinn síðan snemma á síðasta ári, þegar Miðflokkurinn tapaði fylgi í kjölfar Klausturmálsins.

Færu aðeins í stjórn með Sjálfstæðisflokki í sjónvarpsþætti

Fylgi Samfylkingarinnar vex og mælist nú 17,2 prósent. Á grundvelli þessarar könnunar væri ekki hægt að mynda þriggja flokka meirihluta án aðkomu bæði Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. „Það er ekki að fara að gerast. Það gerist bara í sjónvarpsþáttum,“ segir Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.

Það er ekki að fara að gerast. Það gerist bara í sjónvarpsþáttum.

Þeir þrír flokkar í stjórnarandstöðu sem hafa mest fylgi, Samfylkingin, Píratar og Viðreisn, hafa samanlagt 41,1 prósents fylgi og ásamt Vinstri grænum færi fylgi þeirra í 50,8 prósent.

Viðreisn með stöðugasta fylgið

Píratar hafa tæplega 14 prósenta fylgi og standa í stað frá síðustu könnun líkt og Viðreisn sem hefur mælst með 10 prósenta fylgi allt þetta ár.

Stjórnarflokkarnir næðu hins vegar ekki meirihluta jafnvel þótt þeir bættu Miðflokki við, því flokkurinn hefur aðeins 7,5 prósenta fylgi sem er minnsta fylgi flokksins síðan í mars 2019, þegar flokkurinn mældist með 6,6 prósent. Til að tryggja meirihluta þyrftu sitjandi stjórnarflokkar að taka einhvern af stærstu stjórnarandstöðuflokkunum inn í samstarfið: Samfylkinguna, Pírata eða Viðreisn.

Fylgi minnstu flokkanna er svipað og í síðustu könnunum. Flokkur fólksins er rétt undir fimm prósentum, sem er svipað og í síðustu könnunum. Sósíalistar mælast nú með 3,9 prósent en flokkurinn hefur einu sinni mælst yfir fimm prósenta markinu sem þarf til að ná manni á þing. Það var í janúar síðastliðnum.

Könnunin var send á könnunarhóp Zenter rannsókna og svartími var frá 23. til 28. september. Í hópnum voru 2.500 einstaklingar á Íslandi, átján ára og eldri og voru svör þeirra vigtuð eftir kyni, aldri og búsetu. Svarendur voru 1.281 eða 51 prósent.