Ætla má að ný­fallinn dómur Mann­réttinda­dóm­stóls Evrópu (MDE) í Strass­borg verði ræddur þegar ríkisstjórnar­flokkarnir þrír funda hver í sínu lagi í dag. Um er að ræða venjubundna fundi sem fara reglulega fram.

Þá mun ríkis­stjórnin funda klukkan 16 í dag en fundur hennar átti að fara fram í gær. Honum var hins vegar frestað þar sem Katrín Jakobs­dóttir for­sætis­ráð­herra sótti kvenna­ráð­stefnu Sameinuðu þjóðanna í New York en hún kom hingað til lands í morgun.

Full­trúar stjórnar­flokkanna hafa ekki tjáð sig um niður­stöðuna í Strass­borg, að þeim Birgi Ár­manns­syni og Sig­ríði Ander­sen undan­skildum. Birgir segir að hann telji ekki að Sigríður eigi að víkja Katrín Jakobs­dóttir hefur boðað að hún tjái sig um málið í dag. 

Dómur MDE hefur nú þegar dregið dilk á eftir sér. Eftir að komist var að þeirri niður­stöðu að skipan Sig­ríðar Á. Ander­sen á fimm­tán dómurum við Lands­rétt hafi verið and­stæð lögum til­kynnti Lands­réttur í gær að dóms­upp­kvaðningum þar yrði frestað. Þá færu engin mál fram í þessari viku sem dómararnir fjórir, sem ekki voru á lista hæfnis­nefndar en voru samt skipaðir, koma að.

Há­vær krafa er á lofti um að Sig­ríður víki úr em­bætti. Mót­mæli voru haldin á Austur­velli í gær vegna niður­stöðu MDE. Þá hafa stjórnar­and­stöðu­flokkarnir gagn­rýnt hana harð­lega. Fulltrúar Sam­fylkingar og Við­reisnar hafa sagst gera fast­lega ráð fyrir því að hún segi af sér. Píratar hafa gengið enn lengra og boðað til­lögu um van­traust á Sig­ríði. 

Lög­fræðingar og fleiri hafa sagt að með þeirri stöðu sem upp er komin í Lands­rétti hafi skapast ó­vissa um réttar­far hér á landi. Ragnar Aðal­steins­son lög­maður sagði í sam­tali við Frétta­blaðið í gær að ekki væri hægt að hunsa niður­stöðu MDE og að mikil­vægt væri að grípa til að­gerða sem allra fyrst.