„Ég held að það hafi sjaldan verið meiri nauð­syn á að kjósa og núna en því er ekki að leyna að ég hefði talið eðli­legra að kosningarnar hefðu verið færðar aftur til loka maí,“ segir Logi Már Einars­son, for­maður Sam­fylkingarinnar, í sam­tali við Frétta­blaðið um komandi Al­þingis­kosningar.

„Fyrir því eru kannski veiga­mestu rökin að þá hefði nýrri ríkis­stjórn gefist kostur á því að setja mark sitt meira á næstu fjár­lög og undir­búa þau.“

Katrín Jakobs­dóttir, for­sætis­ráð­herra, til­kynnti í dag að gengið yrði til kosninga þann 25. septem­ber 2021. Löngum hefur verið hefð fyrir því að kjör­dagur sé að vori en kjör­tíma­bili nú­verandi ríkis­stjórnar lýkur ekki fyrr en 28. októ­ber og var það vilji ríkis­stjórnar að tíma­bilinu yrði ekki flýtt til vorsins.

Á­byrgðar­laus á­kvörðun

„Mér finnst var­huga­vert að festa í sessi haust­kosningar á þennan hátt,“ segir Hall­dóra Mogen­sen, for­maður Pírata. Seinustu tvær kosningar hafi einungis verið að hausti til vegna þess að annað stóð ekki til boða. „Ríkis­stjórnin er núna að taka með­vitaða á­kvörðun um að hafa haust­kosningar sem er var­huga­vert þar sem þetta gerir það að verkum að fjár­lög verða bara hálf­gerð em­bættis­manna­fjár­lög.“

„Mér finnst þetta vera á­byrgðar­laust og mér finnst þau vera að taka á­kvörðun út frá eigin hags­munum í staðin fyrir að horfa á þetta út frá hags­munum al­mennings,“ segir Hall­dóra um á­kvörðunina.

„Ný ríkis­stjórn fær ekki tæki­færi á að koma með nein al­menni­leg fjár­lög þegar kosningar eru að hausti. Það hefur sýnt sig að þrátt fyrir að það sé hægt sé það ekki á­kjósan­legt.“ Að mati Hall­dóru væri lýð­ræðis­legra að halda vor­kosningar. „Fyrir utan það að ríkis­stjórnin hefur ekki komið með nein rök fyrir því af hverju haust­kosningar annað en að þau vilja sitja út sitt tíma­bil.

Hlýða Bjarna

Þor­gerður Katrín Gunnars­dóttir, for­maður Við­reisnar, tekur í sama streng. „Ég hefði viljað sjá kosningar að vori til, ekki síst út frá því að ný ríkis­stjórn hverju sinni hafi svig­rúm til að móta sín fjár­lög og leggja sínar á­herslur inn í fjár­lögin.“

Þor­gerður telur á­stæðu þess að for­sætis­ráð­herra hafi valið til­tekna dag­setningu einungis vera vegna þess að það var vilji stjórnar­flokkanna. „Bjarni var búin að tala skýrt um það að hann vildi alls ekki hafa kosningar að vori og þá var því hlýtt,“ bætti hún við.

Að hennar mati hefði verið betra að ganga til kosninga í septem­ber á þessu ári ef bregða eigi út af vananum þar sem mörg verk­efni og stórar á­kvarðanir blasi við ríkis­stjórninni í haust eftir for­dæma­laust ár.

„Við munum sýna ríkis­stjórninni mikið að­hald í vetur,“ segir Logi.

Sýna ríki­stjórninni að­hald

Allir for­mennirnir er sam­mála um að væru þau í sporum for­sætis­ráð­herra hefðu þau ekki tekið sömu á­kvörðum. Þau séu þó til­búin í kosningar og hyggjast láta á sér kveða í haust.

„Við munum sýna á spilin í haust og leggja fram mál sem munu tengjast okkar kosningar­á­herslum,“ segir Logi. „Við munum sýna ríkis­stjórninni mikið að­hald í vetur.“

Vit­leysa á þingi

Þing­störf voru í upp­námi vegna far­aldursins í vor og var stjórnar­and­stöðunni haldið fyrir utan þau mál sem rötuðu á borð ríkis­stjórnarinnar á þeim tíma að sögn Loga. „Við þurftum svo að laga stærstu vit­leysurnar í frum­vörpunum hjá þeim þegar þau komu inn á þingið.“

Frum­vörpin sem um ræðir hafi komið ó­burðug inn í þingið. „Að ein­hverju leiti er það skiljan­legt þar sem þurfti að vinna hratt og við erfiðar að­stæður, við bentum þó á að ef að okkar krafta hefði verið óskað fyrr og við hefðum getað horft yfir hlutina með þeim frá upp­hafi þá hefðu frum­vörpin verið betri þegar þau komu inn í þingið.“

Leiða flokkana á­fram

Að­spurður hvort hann muni leiða flokkinn í næstu kosningum segist Logi stefna að því en að að­eins tíminn muni leiða það í ljós.

„Kosningar leggjast alltaf vel í Við­reisn,“ seigir Þor­gerður. Lands­þing flokksins fer fram næst­komandi septem­ber þar sem ný for­ysta verður kosin. Þor­gerður hyggst á­fram gefa kost á sér sem for­mann Við­reisnar.