Þingflokkar Samfylkingar, Pírata, Flokks fólksins, Viðreisnar og Miðflokksins krefjast þess að þing komi saman án tafar í bréfi sem sent var í dag á bæði forsætisráðherra, Katrínu Jakobsdóttur, og forseta Alþingis, Birgi Ármannsson. Samkvæmt plani á þing ekki að koma saman fyrr en 25. Apríl, eða mánudag í næstu viku.

Flokkarnir sendu bréfið eftir að ljóst varð að ríkisstjórnin ætlar að bregðast við gagnrýni á fyrirkomulagi á sölu fjórðungseignarhluta ríkisins í Íslandsbanka með því að leggja Bankasýsluna niður.

Flokkarnir segja það ótækt að mál sem varða grundvallarhagsmuni þjóðarinnar séu til lykta leidd með fréttatilkynningum ríkisstjórnarinnar.

„Af þeirri ástæðu beinir stjórnarandstaðan þeirri eindregnu kröfu til forsætisráðherra að þing komi saman án tafar. Er það gert með vísan til 3. mgr. 77. gr. þingskaparlaga nr. 55/1991 þar sem segir að forseta Alþingis sé skylt að boða til fundar setji forsætisráðherra fram ósk um það. Er því óskað atbeina forsætisráðherra við það að þing komi saman. Þar fari fram umræða um framkvæmd stjórnvalda á sölunni,“ segir að lokum en undir bréfið skrifa þau Helga Vala Helgadóttir fyrir þingflokk Samfylkingar, Halldóra Mogensen fyrir þingflokk Pírata, Guðmundur Ingi Kristinsson fyrir þingflokk Flokks fólksins, Hanna Katrín Friðriksson fyrir þingflokk Viðreisnar og Bergþór Ólason fyrir þingflokk Miðflokksins.