Stjórnar­and­staðan gerði dóms­mála­ráð­herra og fyrir­hugaðar á­ætlanir hans um að auka við eftir­lits­getu lög­reglunnar með for­virkum rann­sóknar­heimildum að skot­spón sínum í ó­undir­búnum fyrir­spurnar­tíma á Al­þingi í dag.

„Hæstvirtur ráðherra hefur farið mikinn í fjölmiðlum að lýsa ósk sinni að auka við eftirlitsheimildir lögreglu. Gera henni meðal annars kleift að fylgjast með fólki á götum úti og fylgjast með netnotkun fólks án þess að það sé einu sinni grunað um að vera að undirbúa glæp, bara svona ef það berast einhverjar ábendingar,“ sagði Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingkona Pírata meðal annars í ræðu sinni en hún telur að efla þurfi það eftirlits sem haft er með störfum lögreglu áður en henni séu veittar auknar rannsóknarheimildir.

Ekkert sjálfstætt eftirlit með störfum lögreglu

„Nefnd um eftirlit með störfum lögreglu hefur ekki rannsóknarvald og hefur ekki ákæruvald eins og til dæmis í Danmörku,“ sagði hún en engin stofnun sé formlega við störf sem raunverulega geti rannsakað störf lögreglu. Þórhildur tók einnig fram að eftirlitsnefndin hefði á tímum þurft að ganga á eftir lögreglu svo vikum og mánuðum skipti.

„Þar sem við erum raunverulegir eftirbátar nágrannaþjóða okkar er í raun þegar það kemur að sjálfstæðu eftirliti með störfum lögreglu,“ sagði Þórhildur Sunna.

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra taldi Þórhildi á villigötum í umræðu sinni um málefnið „Þetta er ekki í fyrsta skipti sem háttvirtur þingmaður snýr umræðunni á hvolf,“ en hann taldi markmið Þórhildar vera beinlínis að rýra traust almennings á lögreglunni. „Það er alvarlegt þegar þingmenn taka til máls og hafa ekki kynnt sér málið betur en raun ber vitni“

„Það er hér verið að tala um fyrir breytingum sem taka á skipulagðri brotastarfsemi og hryðjuverkaógn,“ sagði dómsmálaráðherra sem sagði það af og frá að frumvarp hans snerist um það að fylgjast með almennum borgurum „Þetta gengur út á það fyrst og fremst að tryggja öryggi borgaranna þegar það kemur að þessum stóru brotaflokkum,“ sagði hann

Fjársvelti lögreglu þversagnakennt

Áður hafði Logi Einarssonar, þingmaður Samfylkingarinnar, tekið til máls og sagði „nýlega atburði hafa sýnt fram á mikilvægi lögreglu fyrir öryggi landsmanna“ og vísaði hann þá til rannsóknar lögreglu á meintri hryðjuverkastarfsemi sem mögulega hafi átt að beinast gegn lögreglunni sjálfri en fjórir karlmenn voru handteknir í tengslum við málið og tveir úrskurðaðir í gæsluvarðhald.

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra.
Fréttablaðið/AntonBrink

Lögreglumönnum fækkar en landsmönnum fjölgar

Logi benti á að lögreglumönnum hefði fækkað á meðan landsmönnum hefði fjölgað og að tvær milljónir ferðamanna komi nú hingað til lands ár hvert. „Hér eru þó umtalsvert færri lögreglumenn að störfum en árið 2007“ sagði hann og tók einnig fram að samkvæmt nýju fjárlagafrumvarpi „horfir lögregla á tvöfalda aðhaldskröfu úr einu prósenti í tvö prósent eftir mjög erfitt aðhald síðustu ár. Ef lögregla fengi sömu aðhaldskröfu og heilbrigðisþjónustan fær myndi svigrúmið aukast um 400 milljónir,“ sagði hann

Hann taldi það þversagnakennt að fjárveiting til lögreglu væri ekki aukin á sama tíma og hætta steðjaði að, meðal annars með aukningu í skipulagðri glæpastarfsemi og því sé undarlegt að tala um að styrkja lögreglu á meðan fjárveiting til hennar sé ekki aukin í nýju fjárlagafrumvarpi.

Þessu til svars sagði dómsmálaráðherra að beiðni aukið framlag myndi koma fram þegar búið væri að vinna úr þeim upplýsingum sem til væru komnar um aukið. „Það hefur mikil vinna farið fram um það hvernig við getum nýtt þessa 21,4 milljarða sem veittir eru á hverju ár,“ sagði hann en sagði þó einnig að þegar upplýsingar hefðu borist úr öllum þeim starfshópum sem settir hefðu verið af stað til að meta þörf lögreglu til aukinnar fjárveitinga.

Leiðrétting: Orðalag fréttarinnar hefur verið uppfært til að endurspegla betur orð Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur. Frekar en að ekkert eftirlit sé með störfum lögreglu er er ekkert sjálfstætt eftirlit með störfum lögreglu og gerist það ekki ítrekað að lögregla ansi ekki fyrirspurnum eftirlitsnefndar með störfum lögreglu.