Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, segir að þau mál sem komið hafa inn í þingið nú þegar séu unnin af fullum heilindum í velferðarnefnd, sem flokkurinn hefur formennsku í. Það er frumvörp um laun í sóttkví og hlutaatvinnuleysi. „En þegar kemur að þessum stóra aðgerðarpakka, sem hlýtur að þurfa að birtast sem allra fyrst, þá höfum við ekki fengið neina aðkomu að því,“ segir hann og telur það miður. „Við erum samvinnufús. Þessi bráða­kreppa er ekki tilkomin vegna mistaka eða hagstjórnarvillu stjórnvalda, heldur utanaðkomandi og ófyrirséð. Því er eðlilegt að sem flestir flokkar úr þinginu sameinist um aðgerðirnar.“

Logi.jpg

Logi Már Einarsson

Í bæði Danmörku og Noregi eru stjórn og stjórnarandstaða samtaka um viðbrögð og kynna áætlanir sínar nú saman. Logi telur betri brag á þessu en hér heima. Séu aðgerðir gerðar í sem breiðastri sátt verði þær kraftmeiri og betri og auðveldara að fylgja þeim eftir.

„Við þurfum allar hendur á dekk,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, og ítrekar nauðsyn þess að gott samstarf og samtal sé um aðgerðir. Svo hafi hins vegar ekki verið og ekkert samráð haft um aðgerðarpakka. „Þetta er sameiginlegt verkefni okkar allra og ekki tíminn til að slá pólitískar keilur. En á meðan við fáum engar upplýsingar er eðlilegt að við höldum áfram að spyrja spurninga.“

Þorgerður-Katrín_180912_213343.jpg

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir

Hvorki Logi né Þorgerður hafa heyrt talað um þjóðstjórn í þessu samhengi. „Miðað við aðstæðurnar í samfélaginu væri ekki skrýtið að einhverjum dytti það í hug, en mikilvægast er að ríkisstjórnin komi fram með skýrar og kraftmiklar aðgerðir,“ segir Logi. Þorgerður segist ekki kalla eftir þjóðstjórn, aðeins samvinnu og gegnsæi löggjafarvaldsins.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segir samráðsleysið algjört. „Hins vegar sýnir maður því skilning að það séu takmörk á því hvað stjórnvöld geta haft mikið samráð við stjórnarandstöðu á svona tímum. Það sem maður mundi vilja sjá væri tækifæri fyrir stjórnarandstöðu til að leggja fram hugmyndir og spyrja spurninga,“ segir Sigmundur. „Ég geri ekki kröfu um að við séum með í ráðum í ákvörðunum, en það er mikilvægt að þessi þáttur lýðræðisins virki, að það sé hægt að spyrja og koma ábendingum á framfæri.“

Inga-Sæland_180912_204354.jpg

Inga Sæland


Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, segir stjórnarandstöðuna vilja koma að borðinu. „Í þessum aðgerðaráætlunum sem fjármálaráðherra hefur komið fram með hefur ekki verið neitt samráð haft við okkur. Þetta er þannig ástand að við ættum að standa saman sem ein heild.“ Hún er hins vegar bjartsýn á að svo verði. „Þetta er rosalega skrítinn tími, en ég hef trú á því að þau muni taka okkur fagnandi og sjá það að við séum betur stödd þegar við erum öll að róa saman í sömu átt til að vinna þetta stríð.“