Bjarni Frímann Bjarnason, tónlistarmaður, hljómsveitarstjóri og tónskáld, segir fyrrum tónlistarstjóra SÍ hafa brotið á sér kynferðislega. Bjarni segist hafa greint æðstu stjórnendum hljómsveitarinnar frá brotinu en þeir hafi allir stungið málinu undir stól.

Þetta kemur fram í opinni færslu sem Bjarni Frímann birti á Facebook sem Fréttablaðið fær góðfúslegt leyfi til að birta hér. Bjarni vísar til yfirlýsingar sinnar og vill ekki tjá sig frekar um málið að svo stöddu.

Hann segist hafa fundið sig knúinn til að tjá sig um ofbeldið eftir að hafa hlýtt á margar langar ræður á árlegri ráðstefnu norrænna sinfóníuhljómsveita um mikilvægi þess að hlúa vel að ungu og upprennandi tónlistarfólki.

Bjarni Frímann hefur lengi starfað með Sinfóníunni. Hann segir færslu sína víti til varnaðar.
Fréttablaðið/Stefán Karlsson

Þurfti að vinna með geranda sínum

Bjarni sakar Örnu Kristínu Einarsdóttur, fyrrverandi framkvæmdastjóra SÍ, Láru Sóleyju Jóhannsdóttur, núverandi framkvæmdarstjóra og Evu Ollikainen, núverandi aðalhljómsveitarstjóra um yfirhylmingu, en hann segist hafa sagt þeim öllum frá kynferðisofbeldinu og þær hafi ekkert aðhafst. Hann hafi þurft að vinna áfram með geranda sínum.

Bjarni segir að brotið hafi átt sér stað á heimili meints geranda þegar Bjarni var nemandi hans við Listaháskóla Íslands. „Ég var 17 ára, hann var 35 ára. Hann var til langs tíma tónlistarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands og um leið formaður verkefnavalsnefndar hennar,“ lýsir hann í færslu sinni og heldur áfram.

Bjarni segir að sér hafi orðið snemma ljóst að maðurinn hafi verið viðriðinn við allar ákvarðanir sem vörðuðu hans starfsframa og þroskatækifæri hjá hljómsveitinni.

Arna Kristín Einarsdóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri SÍ, vissi af meintu kynferðisofbeldi af hendi Árna Heimis að sögn Bjarna.
Fréttablaðið/Anton Brink

Stjórnandi skrifaði undir #metoo yfirlýsingu

Arna Kristín skrifaði undir yfirlýsingu árið 2017, #tjaldiðfellur, að hún myndi sem stjórnandi menningarstofnunar bregðast við stöðunni sem uppi er varðandi áreitni, ofbeldi og hvers konar misbeitingu valds í menningargeiranum. Bjarni Frímann hóf störf við SÍ árið 2018 og segist hafa greint Örnu Kristínu frá málinu og hún hafi stungið málinu undir stól, þvert gegn viljayfirlýsingunni árið 2017.

Bjarni segir að stjórn SÍ hafi haft vitneskju um málið að minnsta kosti síðan í september 2021. Þrátt fyrir það hafi hann þurft að starfa með meintum geranda sínum.

Færsluna hans má lesa í heild sinni hér að neðan.