Stjórn Ríkisútvarpsins ætlar ekki að verða við kröfum Samherja um að Helga Seljan, fréttamann RÚV, verði meinað að fjalla um málefni fyrirtæksins.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá stjórninni sem birt var á vef RÚV.
Stjórnin segir málefni einstakra starfsmanna RÚV ekki falla innan starfssviðs hennar og hún hlutist ekki til um fréttaflutning fjölmiðilsins, til dæmis með því að meta hvaða starfsfólk sinni umfjöllun eða fréttaflutningi um tiltekin málefni.
Slíkt sé á verksviði hlutaðeigandi dagskrárstjóra, fréttastjóra sem og dagskrárgerðarfólks og fréttamanna, á ábyrgð útvarpsstjóra. Þessu til stuðnings er vísað til annarrar málsgreinar elleftu greinar laga um Ríkisútvarpið, númer 23/2013.
Í yfirlýsingu stjórnarinnar segir enn fremur að yfirlýsing RÚV, sem sett var inn á vef þess er niðurstaða siðanefndarinnar lá fyrir, sé frá útvarpsstjóra og varafréttastjóra komin vegna atriða sem varða fréttastofuna. Með hliðsjón af þessu muni stjórn RÚV ekki aðhafast frekar í málinu.