Samfélag

Stjórn RÚV ræðir áskorun vegna Ísraels

Áskoranir tugþúsunda um sniðgöngu Eurovision til umræðu í stjórn RÚV. Ekki liggur fyrir á hvers borði ákvörðunin endar. Dagskrárstjóri RÚV segir að haft verði samráð við norrænu stöðvarnar áður en ákvörðun verður tekin.

Hin ísraelska Netta fagnar úrslitum í Eurovision um helgina. Fréttablaðið/Getty

Áskoranir tugþúsunda einstaklinga til RÚV um að sniðganga Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva kom til umræðu á fundi stjórnar RÚV í fyrradag og hefur verið sett á dagskrá næsta fundar stjórnarinnar sem verður í júní. Þá verður rætt um gengi Íslands í keppninni og mögulegar breytingar á fyrirkomulagi við val á framlagi Íslands í framtíðinni.

„Það er útvarpsstjóri sem tekur ákvörðun um þetta og gerir það væntanlega í samráði við stjórn RÚV,“ segir Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra, aðspurð um ákvörðunarvald um mögulega sniðgöngu Íslands.

Skiptar skoðanir eru innan stjórnarinnar um hvort stjórnin hafi einhverja aðkomu að málinu.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Þeir stjórnarmenn sem blaðið ræddi við telja að ákvörðunin varði dagskrá RÚV og komi þannig ekki formlega á borð stjórnar, nema til staðfestingar á ákvörðun útvarpsstjóra. Aðrir viðmælendur telja málið tengt dagskrárvaldi, sem stjórnin komi ekki nálægt og útvarpsstjóra beri að taka ákvörðun að höfðu samráði við dagskrárstjóra. Öllum ber þó saman um að ákvörðunina eigi að taka innan RÚV og án afskipta ráðherra eða ríkisstjórnar.

Þegar blaðið fór í prentun höfðu yfir tuttugu þúsund skrifað undir fyrrgreinda áskorun til RÚV á vefnum change.org en í áskoruninni er vísað til mannréttindabrota og ofbeldis Ísraelsmanna gagnvart palestínsku þjóðinni. Eins og kunnugt er verður keppnin haldin í Ísrael að ári en sigurstigin til Ísraels í keppninni síðastliðinn laugardag höfðu vart verið talin þegar fregnir bárust af mesta mannfalli á Gaza frá árinu 2014 er ísraelski herinn drap sextíu palestínska mótmælendur. Þúsundir særðust í aðgerðum hersins sem hafa verið fordæmdar víða um heim.

Sjá einnig: Páll Óskar vill líka sniðganga Eurovision

„Þetta hefur verið rætt innan dagskrárstjórnar og að sjálfsögðu erum við að skoða málið,“ segir Skarphéðinn Guðmundsson, dagskrárstjóri sjónvarps. Hann segir þó að ákvörðunar sé ekki að vænta á næstu dögum og líklega ekki fyrr en í haust, í aðdraganda þess frests sem stöðvarnar hafa til að tilkynna þátttöku.

Skarphéðinn segir að haft verði samráð við norrænu sjónvarpsstöðvarnar áður en ákvörðun verður tekin um þátttöku. Aðspurður segist hann ekki hafa heyrt af sambærilegri umræðu eða undirskriftasöfnunum í nágrannaríkjunum. Ekki náðist í útvarpsstjóra við vinnslu fréttarinnar.

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Samfélag

Lokanir vegna gamlárshlaups

Samfélag

Eðlilegar skýringar á minnkandi útgáfu vegabréfa

Samfélag

Markmiðið að byggja brýr milli kynslóða

Auglýsing

Nýjast

Skuldagrunnur á teikniborði eftirlitsins

Meirihluti Íslendinga óttast afleiðingar loftslagsbreytinga

Kostar 1,3 milljarða að lagfæra fyrir nýja ferju

Segir fyrirferð RÚV líklega ástæðu úttektar

Handtóku tvo katalónska bæjarstjóra

Dómur í Bitcoin-málinu kveðinn upp í dag

Auglýsing