Boðað hefur verið til aukafundar hjá stjórn Orkuveitu Reykjavíkur vegna brottrekstrar Bjarna Más Júlíussonar sem framkvæmdastjóra Orku náttúrunnar. Bjarna Má var sagt upp störfum vegna óviðeigandi hegðunar í garð starfsfólks, og sendi fyrirtækið frá sér tilkynningu þess efnis í gær.

Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitunnar, er boðaður á fundinn. Brynhildur Davíðsdóttir, stjórnarformaður OR, segir í samtali við Vísi að málið sé tekið mjög alvarlega og þar af leiðandi hafi ákvörðun verið tekin um að boða til fundarins.

Líkt og Fréttablaðið hefur greint frá var undanfari starfsloka Bjarna Más Facebook-færsla frá Einari Bárðarsyni þar sem hann talaði um framkvæmdastjóra stórfyrirtækis sem „sendi klámfengna tölvupósta á kven-undirmenn sína á laugardagskvöldum, kalli þær járnfrúr, frekjur, pempíur, grýlur, segi að konur geti blikkað sig upp í launum og í opnu starfrými fyrir framan samstarfsfólk að ein þeirra gangi ekki út vegna þess að hún sú sé bara alls ekki nógu gröð.“

Sjá einnig: Rekinn með skömm en fær laun í sex mánuði

Síðar kom í ljós að framkvæmdastjórinn var Bjarni Már og að færslan hafði birst eftir fund Einars með forstjóra OR, Bjarna Bjarnasyni. Eiginkona Einars, Áslaug Thelma Einarsdóttir, er fyrrverandi forstöðumaður einstaklingsmarkaðs hjá ON.

Bjarni Már vildi ekki ræða við Fréttablaðið þegar eftir því ar leitað en vísaði í samtöl sín við aðra miðla. Þar sagðist hann hafa gert mistök en ekki vera „dónakall“.

Þá hefur Bjarni Bjarnason vísað því á bug að hafa tekið fálega í athugasemdir Einars Bárðarsonar um meinta hegðun Bjarna Más, líkt og Einar fullyrti á Facebook.