Stjórn Knatt­spyrnu­sam­bands Ís­lands barst erindi frá lög­manni Kol­beins Sig­þórs­sonar þann 7. septem­ber. Þar er þess krafist að á­kvörðunin um að taka Kol­bein úr lands­liðs­hópnum yrði aftur­kölluð og að hann verði opin­ber­lega beðinn af­sökunar.

Stjórn KSÍ segist í svar­bréfi ekki sjá nein á­stæðu til að draga á­kvörðunina til baka né biðjast af­sökunar. DV sagði fyrst frá.

Kol­beinn var valinn í ís­lenska lands­liðið fyrir undan­keppni HM en var tekinn úr hópnum í kjöl­far um­ræðu um kyn­ferðis­lega á­reitni sem hann er sakaður um að hafa beitt Þór­hildi Gyðu Arnars­dóttur og Jóhönnu Jens­dóttur árið 2017.

Kröfurnar óhóflegar og ósmekklegar

Hörður Felix Harðar­son, lög­maður Kol­beins, segir KSÍ hafa vitað um málið allt frá árinu 2018 og samt endur­tekið valið Kol­bein í lands­liðið. Hann segir þó vera rang­færslur í frá­sögnum kvennanna tveggja og segir KSÍ hafa mátt kanna þær betur áður en á­kvörðun var tekin.

Líkt og kom fram í yfir­lýsingu Kol­beins áður þá segir Hörður að Kol­beinn hafi „aldrei gengist við of­beldis- eða kyn­ferðis­broti. Hann kannaðist við að hafa brugðist rangt við endur­teknu á­reiti á skemmti­stað.“

Hörður segir enn fremur í bréfinu að kröfur Þór­hildar og Jóhönnu hafi verið ó­hóf­legar og ó­smekk­legar en að Kol­beinn hafi gengist við þeim til að loka málinu.

Hörður segir af­leiðingarnar fyrir Kol­bein vera um­tals­verðar og þann 7. septem­ber höfðu verið skrifaðar 738 greinar um málið í fjöl­miðlum um allan heim.

„Þá er rétt að geta þess að fréttum um um­bjóðanda minn hefur verið deilt 3500 sinnum á sam­fé­lags­miðlinum Face­book, 794 sinnum á Reddit og 194 sinnum á Twitter nú þegar. Ekki er séð fyrir endann á þessari um­fjöllun,“ segir Hörður í bréfinu.

Áskilur sér rétt til miskabóta

Sam­kvæmt Herði þá trúir Kol­beinn því að stjórn KSÍ viti að á­kvörðunin um að víkja honum til hliðar hafi verið röng. Hann biður um að á­kvörðunin sé snúin til baka og að honum sé beðið af­sökunar, annars á­skilji hann sér rétt til miska­bóta.

KSÍ svarar í gegnum lög­manns­stofuna LEX og er það Óskar Sigurðs­son lög­maður sem skrifar. Þar segir að stjórnin mat það hvorki í þágu ís­lenska lands­liðsins né Kol­beins að lands­liðs­maðurinn tæki þátt í lands­leikjunum.

Þá leggur Óskar þunga á­herslu á að stjórn KSÍ hafni því að á­kvörðunin hafi verið or­sök þeirrar um­fjöllunar sem mál Kol­beins fékk í sam­fé­laginu og fjöl­miðlum. Sú um­ræða hafi þegar verið farin af stað og stjórnin verið að bregðast við henni.

Þá segir að stjórn KSÍ telji ekki neina á­stæðu til að draga um­rædda á­kvörðun til baka eða biðja Kol­bein af­sökunar á henni.