Elínborg Harpa Önundardóttir, aðgerðarsinni hjá No Borders Iceland, hyggst kæra lögregluna á höfuðborgarsvæðinu fyrir ólögmæta handtöku á Gleðigöngunni árið 2019. Hún hefur með hjálp samfélagsmiðla náð að safna peningum fyrir lögmann og mat hjá sálfræðingi vegna áfallastreituröskunar í kjölfar handtökunnar en fékk nýlega höfnun á styrktarbeiðni frá stjórn Hinsegin daga.

Málið má rekja til Hinsegin daga 2019, þegar Elínborg Harpa var handtekin, að því er virðist fyrir það eitt að vera á staðnum. Samkvæmt lögregluskýrslunni voru það forsvarsmenn Gleðigöngunnar sem tilkynntu til lögreglu að mótmælendur hyggðust stöðva gönguna með því að leggjast á götuna. Síðar kom tilkynning frá bifhjólalögreglumanni sem sá Elínborgu Hörpu, „þekktan mótmælanda“, ganga niður Skólavörðustíg í átt að Bankastræti. Hún var því tekin til hliðar, ekki fyrir að mótmæla, heldur fyrir að vera þekktur mótmælandi.

„Staðreyndin er hins vegar sú að ég var bara að flýta mér til vina minna til að skemmta mér í góðu veðri á degi sem kenndur er við fagnaðardag hinseginleika. Lögreglan þekkti mig og ákvað að stöðva mig vegna ábendingar frá öðru hinsegin fólki, í kjölfarið var ég beitt bæði andlegu og líkamlegu ofbeldi af hálfu lögreglunnar,“ skrifar Elínborg Harpa í færslu á Facebook. Þar birtir hún skjáskot úr lögregluskýrslu annars og vegar og úrskurði nefndar um eftirlit með lögreglu hins vegar, sem komst að þeirri niðurstöðu lögreglan hefði ekki farið út fyrir valdheimildir sínar þegar hún handtók Elínborgu Hörpu á Hinsegin dögum.

„Mér brá líka frekar mikið þegar ég kom inn í bílinn þar sem að þar sat lögreglumaður sem hafði nokkrum mánuðum fyrr beitt bæði kylfu og piparúða á mig.“

Afrit af skýrslu nefndar um eftirlit með lögreglu

Sett í lögreglutök með harkalegum hætti

Í skýrslu nefndar um eftirlit með lögreglu kemur fram að lögreglan Elínborg hafi neitað að hlýða fyrirmælum lögreglu um að hætta að taka atvikið upp á myndband með símanum sínum. Hún var sett inn í lögreglubíl og með harkalegum hætti sett í lögreglutök á gólfi þar sem lögreglumaður setti hné á bakið hennar á meðan annar hélt um fætur hennar sem voru krosslagar og setti upp að aftanverðum lærum í þeim tilgangi að halda henni niðri. Hún óskaði ítrekað eftir því að fá að setjast og að þeir slepptu sér en ekki var orðið við þeirri beiðni. Var hún síðan færð á lögreglustöð.

„Mér brá líka frekar mikið þegar ég kom inn í bílinn þar sem að þar sat lögreglumaður sem hafði nokkrum mánuðum fyrr beitt bæði kylfu og piparúða á mig og aðra, fyrir að sitja á pappaspjöldum á Austurvelli á mótmælum með fólki á flótta,“ segir Elínborg.

Afrit af lögregluskýrslu

Bjuggust við mótmælum

Stjórn Hinsegin daga segir í svari við fyrirspurn fréttablaðsins að fyrir Gleðigönguna 2019 höfðu borist fréttir af því að ganga erlendis hefði verið trufluð, með þeim hætti að einstaklingar lögðust í veg fyrir hana. Það sama hafði áður gerst annars staðar ári fyrr. Mikil hætta fylgi slíkum gjörningi, þegar tugþúsundir safnast saman og nauðsynlegt að allt gangi eftir áætlun.

Stjórn Hinsegin daga segist hafa haft það eftir heimildum um að mótmæli myndu fara fram á Gleðigöngunni. Ekki kemur fram hvort No Borders hafi lýst því yfir að þau hyggðust mótmæla eða hvaðan stjórnin hafði þessar heimildir.

„Stjórn Hinsegin daga á marga fundi með borgaryfirvöldum og lögreglu í aðdraganda göngunnar ár hvert til að tryggja öryggi allra þeirra fjölmörgu, sem safnast saman í miðborginni. Á þeim fundum eru rædd öll þau fjölmörgu atriði, sem hugsanlega geta haft áhrif á hátíðina. Mótmæli höfðu verið við opnunarhátíð Hinsegin daga þetta ár og samkvæmt heimildum stjórnar var ástæða til að ætla að þau myndu endurtaka sig við gönguna.“

Frá Hinsegin dögum 2019 þegar Elínborg Harpa var handtekin fyrir að vera þekktur mótmælandi.
Fréttablaðið/Anton Brink

„Ofbeldi verður aldrei liðið á Hinsegin dögum, fremur en aðra daga.“

Gera allt nema veita styrk

Aðspurð um handtöku Elínborgar Hörpu ítrekar stjórnin yfirlýsingu sína frá því í júlí á síðastliðnu ári, þar sem harkaleg handtaka í upphafi göngunnar var hörmuð. „Jafnframt lýsti stjórnin því yfir að hún myndi gera allt sem í hennar valdi stæði til að koma í veg fyrir að slíkt endurtæki sig. Við það ætlar stjórnin að standa. Ofbeldi verður aldrei liðið á Hinsegin dögum, fremur en aðra daga.“

Þrátt fyrir yfirlýsingu stjórnar um að gera allt sem í hennar valdi stendur til að koma í veg fyrir slíka handtöku aftur tók stjórnin ákvörðun um að veita Elínborgu ekki styrk til að lögsækja lögregluna fyrir handtökuna.

„Félagslög Hinsegin daga veita ekki heimild til styrkveitinga til einstaklinga af þeim ástæðum sem gefnar voru upp í styrkbeiðni. Þess vegna var slíkri ósk hafnað á stjórnarfundi sl. sunnudag. Í því felst þó ekki afstaða til fyrirhugaðrar málshöfðunar, allir eiga rétt á úrlausn sinna mála fyrir dómstólum,“ segir stjórnin.