Q-félag, félag hinsegin stúdenta, ætlar sér ekki að taka þátt í Hinsegin dögum á þessu ári, og þar á meðal Gleðigöngunni. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá félaginu.

Ástæðan sem Q-félagið nefnir fyrir fjarverunni er handtaka sem átti sér stað á viðburðinum árið 2019. Félagið sakar stjórn Hinsegin daga um að hafa sigað lögreglunni að hinsegin einstaklingi, sem hafi í kjölfarið verið handtekinn.

„Veit upp á sig sökina en hafa valið að segja ekkert“

„[V]ið í stjórn Q-félagsins getum ekki með góðri samvisku tekið þátt í göngu sem er ekki fyrir allt hinsegin fólk. Í gleðigöngunni 2019 var hinsegin manneskja handtekin eftir að stjórn Hinsegin daga sigaði lögreglunni á hán fyrir það eitt að ætla að mæta á gönguna, og lögreglan beitti hán siðan ofbeldi sem hán kærði fyrir. Hinsegin dagar hafa ekki beðist formlegrar afsökunar á því að hafa sigað lögreglunni á hán. Ekki einu sinni eftir að hán leitaði réttar síns eftir lögregluofbeldið við íslenska ríkið og fékk greiddar miskabætur. Stjórn Hinsegin daga veit upp á sig sökina en hafa valið að segja ekkert og vona að þau hljóti engar afleiðingar.“ segir í yfirlýsingu félagsins.

Formaður Hinsegin daga segist harma handtökuna, en vill ekki tjá sig um ásakanirnar í garð stjórnarinnar

Félagið auðvitað ekki hafið yfir gagnrýni

„Það er auðvitað leiðinlegt að það sé upplifun hinsegin félegs að það sé best að taka ekki þátt í göngunni,“ segir Gunnlaugur Bragi Björnsson, formaður Hinsegin daga, um málið og bætir við „félagið er auðvitað ekki hafið yfir gagnrýni eins og hvað annað,“

Hann segir ljóst að frekara samtal muni þurfa að eiga sér stað um atvikið sem átti sér stað árið 2019.

Segist ekki geta tjáð sig um handtökuna

„Hinsegin dagar hafa alltaf harmað þessa handtöku,“ segir Gunnlaugur og vísar til yfirlýsingar sem Hinsegin dagar gáfu frá sér árið 2020, og hægt er að lesa hér.

Aðspurður út í ásakanir Q-félagsins um að stjórn Hinsegin daga hafi sigað lögreglunni á einstaklinginn áður en handtakan átti sér stað segist Gunnlaugur ekki geta tjáð sig eða fullyrt neitt um atvikið.

Lögreglan ekki þátttakandi í gleðigöngunni

„Lögreglan á ekki að fá að taka þátt í gleðigöngunni. Þetta er vettvangur hinsegin fólks, ekki forréttindastéttar sem er valdamikil í samfélaginu.“ segir í yfirlýsingu Q-félagsins. Þar er fullyrt að lögreglan „fái pláss“ í Gleðigöngunni og snýst gagnrýni félagsins að miklu leiti um viðveru hennar í göngunni.

Lögreglan er ekki þátttakandi í gleðigöngunni að sögn Gunnlaugs, þó hún sé viðstödd viðburðinn til að passa upp á öryggi viðstaddra, líkt og með flesta aðra fjölmenna viðburði.

Hinsegin dagar fara fram um þessar mundir og mun Gleðigangan sjálf eiga sér stað á laugardaginn. Q-félagið ætlar sér að halda viðburðinn Hinsegin heift! þennan sama dag.