„Ég get upplýst um það að stjórnin mun hittast á morgun beinlínis vegna þessarar skýrslu.“ Þetta segir Daði Már Kristófersson, formaður stjórnar Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands (HHÍ), aðspurður um eftirmála útgáfu HHÍ á umdeildri skýrslu Oddgeirs Á. Ottesen, hagfræðings, um þjóðhagsleg áhrif hvalveiða í síðustu viku. Skýrslan var unnin að beiðni atvinnuvegaráðuneytisins.

Vísindamenn, þar á meðal félagsmenn Vistfræðifélags Íslands, hafa gert alvarlegar athugasemdir við aðferðir og ályktanir skýrsluhöfunda. Athugasemdir sem meðal annars taka til þess að ekki sé minnst á áhrif hlýnunar sjávar á vistkerfi hafsins og að höfundar byggi ályktanir sínar á rúmlega tveggja áratuga gömlum vísindagreinum.

Jafnframt hafa Náttúrufræðistofnun Íslands og Hafrannsóknarstofnun birt fréttir á heimasíðum sínum í tilefni af útgáfu skýrslunnar. Náttúrufræðistofnun segir misskilnings gæta í skýrslunni þar sem fjallað er um stöðu hvala á válista. Í skýrslunni segir að ef stofnar hrefnu og langreyðar væru 40 prósent minni gæti verðmæti afla Íslendinga aukist um á annan tug milljarða á ári.

„Náttúrufræðistofnun Íslands vekur athygli á því að fækkun af þeirri stærðargráðu sem hér er nefnd, myndi breyta stöðu langreyðar á válista og tegundin yrði metin í hættuflokk við Ísland,“ segir í tilkynningu Náttúrufræðistofnunar. „Til að setja hlutföllin í tölulegt samhengi þá þýðir framangreint að veidd yrðu allt að 16.000 dýr.“

Náttúruverndarsamtök Íslands gera einnig alvarlegar athugasemdir við skýrsluna og í bréfi sem samtökin sendu Sigurði Jóhannessyni, forstöðumanni HHÍ á mánudaginn er meðal annars spurt af hverju stuðst hafi verið við áratuga gamlar vísindagreinar „sem lýsa tilgátu en eru ekki niðurstaða rannsókna“ og hvort Hagfræðistofnun telji boðlegt að vitna í óbirta greinagerð líkt og gert í skýrslunni.

„Það hafa náttúrulega komið athugasemdir við það hvernig að skýrslan var unnin sem er ástæða til að stjórnin skoði og ræði,“ segir Daði Már.