Stjórn Ferðafélags Íslands mun funda í kjölfar yfirlýsingar forseta félagsins, Önnu Dóru Sæþórsdóttur, um afsögn sína.

Frá þessu greinir Pétur Magnússon, gjaldkeri félagisins, í samtali við Fréttablaðið. Hann segir í kjölfarið muni félagið bregðast við yfirlýsingu Önnu. Hann gat ekki ekki tjáð sig um hvort Anna yrði viðstödd fundin, og vildi ekki tjá sig frekar um málið að svo stöddu.

Líkt og áður segir gaf Anna Dóra út yfirlýsingu í morgun þar sem hún greindi frá afsögn sinni og sagði ástæðuna vera viðbrögð stjórnar félagsins við málum er vörðuðu áreitni og kynferðislegt ofbeldi.

„Fljótlega eftir kosningu fóru mér að berast upplýsingar um ýmis mál sem ekki hafði verið brugðist við af hendi félagsins, heldur virtist upplýsingum ítrekað hafa verið stungið undir stól, hvort sem þær vörðuðu ásakanir um áreitni og gróft kynferðislegt ofbeldi eða athugasemdir um rekstur félagsins. Þegar ég fór að beita mér fyrir því að tekið yrði á þessum málum og öðrum fór að bera á brestum í samstarfi mínu við stjórn og framkvæmdastjóra.“ sagði Anna og heldur því fram að stjórnendur félagsins hafi verið meðvitaðir um þessi mál.

Í yfirlýsingu sinni ítrekar Anna að hún vilji ekki starfa í félagi þar sem stjórnarhættir ráði ríkjum ríkjum sem fari þvert gegn hennar eigin gildum, og vonast hún til þess að það muni breytast sem fyrst.