Alls verða um 700 börn á aldrinum 13 til 17 ára vistuð í húsnæði í Texas sem opnaði á mánudaginn. Þetta er fyrsta nýja húsnæðið fyrir börn í hælisleit sem opnað er af stjórn Joe Bidens Bandaríkjaforseta. Lögfræðingar í innflytjendamálum og baráttufólk veltir fyrir sér hvers vegna Biden hefur ákveðið að enduropna húsnæðið, sem opnaði fyrst sumarið 2019.
Stjórn Donald Trumps, forveri Bidens í embætti, opnaði húsnæðið upphaflega. Það var afar umdeilt á sínum tíma og því harðlega mótmælt að vista börn með þessum hætti. Opinberir starfsmenn segja að um nauðsynlegar aðgerðir sé að ræða vegna COVID-19 faraldursins sem takmarkar hve mörg börn má vista í hverju rými.

Á sama tíma hafi börnum án fylgdarmanns sem komi yfir landamærin frá Mexíkó fjölgað og voru þau aldrei fleiri en í janúar miðað við sama mánuð undanfarin ár en þau voru fleiri 5700.
Húsnæðið stendur á tæplega 27 hektara svæði í Carrizzo Springs í Texas. Þar eru fjöldinn allur af færanlegu húsnæði þar sem börnin verða vistuð, stórt tjald þar sem börnin fá að borða, fótbolta- og körfuboltavöllur. Auk þess er stórt sjúkratjald, húsnæði fyrir skólakennslu og hársnyrtistofa. Stefnt er að því að loka því þegar COVID-19 faraldurinn er yfirstaðinn.
Þetta er risastórt skref aftur á bak
„Þetta er óþarfi, þetta er kostnaðarsamt og þetta gengur gegn öllu sem Biden lofaði að gera. Þetta er skref aftur á bak, ekkert annað. Þetta er risastórt skref aftur á bak,“ segir lögfræðingurinn Linda Brandmiller, sem sérhæfir sig í málefnum innflytjenda, í viðtali við Washington Post.
Í kosningabaráttu sinni lofaði Biden því að draga til baka harðar aðgerðir forvera síns í málefnum hælisleitenda og innflytjenda. Á fyrsta mánuði sínum í embætti hefur Biden undirritað fjöldann allan af forsetatilskipunum til að afnema aðgerðir Trumps.
Í síðustu viku kynnti hann og samflokksmenn hans úr röðum Demókrata í fulltrúadeild Bandaríkjaþings áætlun til að veita um 11 milljónum ólöglegra innflytjenda tækifæri til að öðlast ríkisborgararétt.

Biden hefur einnig slakað á reglum um brottrekstur barna án fylgdarmanns úr landinu og leyft þeim að fara yfir landamærin. Þetta er ein ástæða fjölgunar barna sem til Bandaríkjanna koma að sögn hins opinbera. Afstaða stjórnar Bidens er fráhvarf frá hugmyndafræði stjórnar forvera hans, sem byggði á „lögum og reglu.“ Þetta segir Mark Weber, talsmaður heilbrigðisráðuneytisins, sem hefur umsjón með málefnum barna í hælisleit.
Ráðuneytið hefur yfir að aðstöðu fyrir rúmlega þrettán þúsund börn og rekur í heild 200 búðir fyrir börn í hælisleit. Þeim hefur fjölgað um 80 á síðustu fjórum árum. Nú eru um sjö þúsund börn í umsjá heilbrigðisráðuneytisins.