Stjórn Donalds Trump, þáverandi Bandaríkjaforseta, ákvað árið 2018 að segja sig úr Mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna (HCR). Ísland tók sæti þeirra þar sem fulltrúi vestur-evrópskra og annarra ríkja (WEOG). Stjórn Joes Biden Bandaríkjaforseta hefur tilkynnt að hún hyggist aftur taka þátt í starfi ráðsins og öðrum alþjóðastofnunum.

Ísland sat í ráðinu í 18 mánuði, frá 13. júlí til áramóta 2019. Mannréttindaráðið á að styðja við mannréttindi og vernd þeirra um heim allan og eru ríki kosin til setu þar af allsherjarþingi SÞ til þriggja ára í senn.

Trump réttlætti þá ákvörðun að víkja úr ráðinu með því að ráðið fjallaði með ósanngjörnum hætti um meint mannréttindabrot Ísraels. Því gætti ekki sanngirni í því hvaða mál væru á dagskrá þess. Þrátt fyrir að núverandi stjórnvöld vestan hafs ætli að taka aftur þátt í starfi ráðsins er það þó ekki svo að Bandaríkin fái sjálfkrafa sæti þar. Nú sitja Þýskaland og Holland í þeim tveimur sætum af 47 sem WEOG er úthlutað.

Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir að úrsögn Trumps „gerði ekkert til að knýja fram markverðar breytingar en skapaði þess í stað tómarúm þar sem leiðtogahlutverk Bandaríkjanna skorti, sem valdsækin ríki hafi nýtt sér.“ Afstaða ráðsins til Ísraels sé þó enn áhyggjuefni, segir Blinken.

Ekki er ljóst hvort Bandaríkin hyggist bjóða sig fram til setu í ráðinu í haust þegar kosið verður í það á nýjan leik. Kínverjar voru kosnir til setu þar í fyrra, þrátt fyrir andstöðu Bandaríkjanna, og munu þeir hugsanlega svara fyrir það með því að freista þess að hindra kosningu Bandaríkjanna í ráðið nú, ákveði stjórn Bidens að sækjast eftir því.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra fagnar tilkynningu Blinkens. „Þrátt fyrir að Mannréttindaráðið sé ekki fullkomið gegnir það lykilhlutverki í að vekja athygli á mannréttindabrotum, líkt og Ísland gerði með virkum hætti sem meðlimur þess. Í sameiningu verðum við að styrkja Mannréttindaráðið svo það geti náð árangri,“ segir Guðlaugur Þór. Að mati Sveins H. Guðmarssonar, upplýsingafulltrúa utanríkisráðuneytisins, er ákvörðun Bandaríkjanna gleðiefni.

Fullrúi Íslands í ráðinu beitti sér einkum gegn mannréttindabrotum Rodrigo Duterte, forseta Filippseyja, í stríði hans gegn vímuefnum. Hann brást ókvæða við málflutningi Íslands og afskiptasemi þess.